Í síðasta mánuði lauk árlegum úthafsrækjuleiðangri Hafrannsóknastofnunar fyrir norðan og austan land. Markmið leiðangursins var að meta stofnstærð og nýliðun úthafsrækju. Mælingin fór fram á r/s Bjarna Sæmundssyni 4.-19. júlí og leiðangursstjóri var Ingibjörg G. Jónsdóttir.
Veiðistofnsvísitala úthafsrækju er svipuð og hún mældist síðastliðin tvö ár og því ljóst að stofninn er áfram í lægð miðað við síðasta áratug. Meira var af rækju á Sléttugrunni en undanfarin ár og var vísitalan á svæðinu rétt yfir meðallagi.Hins vegar var minna af rækju við Grímsey en síðastliðin þrjú ár. Á öðrum svæðum var vísitalan langt undir langtíma meðaltali. Talningar bentu til að rækjan væri smærri á öllum svæðum en undanfarin ár og bráðabirgðaútreikningar sýna að nýliðun rækju er betri en síðastliðin níu ár. Nýliðun úthafsrækju hefur farið hægt vaxandi frá árinu 2010 þegar hún var í sögulegu lágmarki. Sjá frétt á vef Hafrannsóknastofnunar .