Fiskistofa Japans bætti á síðasta ári langreyðum á lista sinn yfir þær þrjár tegundir hvala sem veiða má með löglegum hætti innan japanskrar lögsögu. Japan stefnir að því að auka hvalveiðar í atvinnuskyni innan lögsögunnar.
Hvalkjöt af langreyðum, sem í fyrsta sinn í 50 ár, voru veiddir út af strönd nyrsta hluta Japans, var boðið upp í desember síðastliðnum. Allt að 1.300 dollarar fengust fyrir kílóið á uppboðinu. Það er því ljóst að hvalkjöt er engin alþýðufæða eins og áður var í Japan.
Heimilt að veiða 379 dýr
Japanir hófu hvalveiðar á ný innan eigin lögsögu í kjölfar þess að landið sagði sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, IWC, árið 2019. Árið 1976 hafði IWC sett langreyði á lista yfir tegundir sem stæðu hætta af ofveiði. Japönsk stjórnvöld segja nú að nýlegt stofnmat á langreyðum leiði í ljós að staða stofnsins sé með ágætum norðarlega í Kyrrahafinu. Leyfðar voru veiðar á 60 langreyðum á síðasta ári og í desember hafði helmingur kvótans verið veiddur. Alls var heimilt að veiða 379 dýr af þeim þremur öðrum tegundum sem heimilt er að veiða innan lögsögunnar, þ.e.a.s. hrefnum, Brydeshval og sandreyðum.
180.000 kr. fyrir kílóið af „onomi“
Kyodo Senpaku Co. er eina eina fyrirtæki landsins sem gerir út á hvalveiðar í atvinnuskyni. Fyrirtækið sjósetti á síðasta ári nýtt sérhæft hvalveiðiskip, Kangei Maru, 9.300 brúttólesta skip sem kostaði 49 milljónir dollara að smíða, tæpa 7 milljarða ÍSK. Þótti það til marks um fyrirtækið hefði mikla trú á framtíð hvalveiða í landinu.
Dag einn í síðasta mánuði voru um 1,4 tonn af fersku kjöti af langreyðum sem veiddir voru úti fyrir ströndum Hokkaido, boðin upp á fiskmarkaðnum í Sapporo og í heimahöfn Kangei Maru, Shimonoseki.
250 kíló voru boðin upp í Shimonoseki af kjöti af langreyð sem hafði verið flogið með frá Hokkaido í tilefni af uppboðinu. Um var að ræða kjöt af sporðinum sem er þekkt sem mikið góðgæti í Japan undir heitinu „onomi“. Hæsta verðið fékkst fyrir þetta kjöt, eða 1.312 dollarar fyrir kílóið. Þetta eru um 180 þúsund ÍSK.
Ársneyslan úr 233.000 tonnum í 2.000 tonn
Andstaða gegn hvalveiðum hefur dvínað mjög í Japan eftir að stjórnvöld ákváðu að láta af rannsóknaveiðum í Suður-Íshafi sem höfðu sætt mikilli gagnrýni á alþjóðavettvangi. Stefnan var tekin á hvalveiðar í atvinnuskyni innan lögsögu landsins.
Á síðasta ári veiddu japanskir hvalveiðimenn 294 langreyði, Brydeshvali og sandreyði sem var innan við 80% af útgefnum kvóta og umtalsvert minna en veitt hafði verið í rannsóknaskyni í Suður-Íshafi og norðurvestur Kyrrahafi.
Áður fyrr, þegar Japanir glímdu við vannæringu á árunum eftir síðari heimsstyrjöld, var hvalkjöt ódýr og hentugur próteingjafi. Ársneyslan náði hámarki árið 1962 í 233 þúsund tonnum. Síðan hefur annað kjöt að mestu leyti leyst hvalkjöt af hólmi sem próteingjafi og ársneyslan hefur fallið niður í 2.000 tonn á ári síðastliðin ár. Japönsk stjórnvöld stefna að því að auka ársneysluna í 5.000 tonn á ári í því skyni að halda atvinnugreininni á lífi. Sumir segja vafa leika á því að hægt verði að auka eftirspurn eftir hvalkjöti í landinu þar sem það er hvorki rótgróin hefð fyrir neyslu þess lengur og það er alls ekki ódýr matvara.