,,Skilaboðin til okkar manna eru skýr: Haldið ekki til grásleppuveiða fyrr en tryggt er hvaða verð þið fáið fyrir óskorna grásleppu eða hrognin ein og sér“ sagði Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda í samtali við Fiskifréttir.
Grásleppuvertíðin má hefjast um miðja næstu viku, 20. mars, en Örn kvaðst ekki búast við að menn flykktust til veiða strax vegna óvissunnar um söluhorfur, verð og fjölda veiðidaga. Stjórnvöld hafa gefið út leyfi fyrir 20 veiðidögum til bráðabirgða, en það verður endurskoðað að loknu vorralli Hafrannsóknastofnunar.
,,Hér áður fyrr gátu menn farið á veiðar og saltað hrognin og geymt þar til viðunandi verð lá fyrir. Núna vilja stærstu kaupendurnir ekki kaupa hrognin ein og sér heldur sjálfa grásleppuna með hrognunum í við löndun. Enginn vill þó nefna verð,“ sagði Örn.
Að sögn Arnar var stöðugt verð á grásleppuhrognunum framan af vertíðinni í fyrra, en í júnímánuði, nánast á einni nóttu, féll verðið snögglega án skýringa. ,,Þetta var afar einkennilegt því áætlað framboð inn á markaðinn var í eðlilegu jafnvægi og ekkert annað í stöðunni sem gaf tilefni til verðhruns. Manni dettur helst í hug að þegar farið var að selja grásleppuna með hrognunum í hérlendis mynduðust nokkur verð og vera kann að kaupendur hafi haldið að verðið væri að lækka. Þar af leiðandi hættu allir að kaupa samtímis og verðið hrundi,“ sagði Örn Pálsson.