Polar Code er vinnuheiti á verkefni á vettvangi IMO (Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar) sem lýtur að því að semja reglur um skip í förum á heimskautasvæðum. Sem kunnugt er hefur hlýnun jarðar það í för með sér að áður ófær hafsvæði eru að verða aðgengilegri skipum og starfsemi sem hefur að markmiði að leita arðbærra auðlinda.
Núverandi reglur um öryggi skipa í alþjóðlegum siglingum hafa ekki tekið sérstaklega mið af siglingum á heimskautasvæðum og þeim sérstöku aðstæðum og ógnum við öryggi sjófarenda sem þar má vænta sem eru til dæmis:
• Lágt umhverfishitastig, jafnvel lægra umhverfishitastig en hönnunarstaðlar gera ráð fyrir.
• Hafís á siglingaleiðum eða siglingar þar sem skip þarf að "höggva sig" í gegn um lagnaðarís.
• Siglingar fjarri stöðum þar sem unnt er með skömmum fyrirvara að koma nauðstöddu skipi til aðstoðar eða annast um björgun þúsunda farþega.
• Siglingar á hafsvæðum þar sem sjókort eru ekki áreiðanleg eða sem eru að heita má ókortlögð.
• Aukin skekkja í siglingatækjum vegna nálægðar við segulskaut og þar sem staðarákvarðanir eru háðar meiri óvissu.
• Skortur á björgunar- og öryggisbúnaði til þess að beita við aðstæður þar sem yfirborð sjávar er þakið hafís.
Sjá nánar á vef Siglingastofnunar.