Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson sat fund sjávarútvegsráðherra landa við Norður-Atlantshaf dagana 23. - 25. júní í Brønnøysund í Noregi. Viðstaddir voru ráðherrar og embættismenn frá ESB, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Kanada, Noregi og Rússlandi.

Í tengslum við fundinn átti Sigurður Ingi sérstaka fundi með ráðherrum nokkurra þeirra landa sem Ísland á hvað mest samskipti við á sjávarútvegssviðinu.

Á fundinum með Lisbeth Berg-Hansen sjávarútvegsráðherra Noregs voru ráðherrarnir sammála um að samskipti þjóðanna væru til fyrirmyndar að undanskilinni makríldeilunni sem varpaði skugga á samstarf þjóðanna. Ráðherrarnir lögðu báðir mikla áherslu á að ná sem fyrst samningum milli strandríkjanna um mikilvæga nytjastofna en í máli norska ráðherrans kom þó fram að viðræður gætu ekki hafist fyrr en að loknum þingkosningum í Noregi nú í haust.

Í viðræðum við Hr. Karl Lyberth sem nýverið tók við embætti sjávarútvegsráðherra Grænlands var lögð áhersla á að auka enn frekar samstarf Íslands og Grænlands á sjávarútvegssviðinu. Rætt var sérstaklega um mögulegan samning milli þjóðanna um sameiginlega nýtingu rækjustofnsins á Dohrnbanka.

Á fundinum með rússneska ráðherranum Hr. Andrey Krayniy var lögð áhersla á að Rússar tækju fullan þátt í samningi þjóðanna um veiðar á úthafskarfa og lögðu fram vísindaleg gögn til að tryggja aukið traust milli aðila.

Sjá nánar frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins.