Hæstiréttur í Bretlandi hefur dæmt stjórnvöldum í hag vegna endurúthlutunar hluta aflaheimilda frá stórútgerðinni til smábátasjómanna, að því er fram kemur á fréttavef BBC. Um er að ræða aflaheimildir sem hafa ekki verið nýttar.
Samtök fiskframleiðenda (The UK Association of Fish Producer Organisations) véfengdu réttmæti ákvörðunar stjórnvalda um að endurúthluta ónotuðum kvóta og skutu málinu til dómstóla. Samtökin héldu því fram að ákvörðun stjórnvalda bryti bæði í bága við lög Evrópusambandsins og bresk lög og fæli í sér mismunun. Dómurinn féllst ekki á þau rök. Hér er um að ræða leyfi til að veiða fisk sem er metinn á um eina milljón punda (187 milljónir ISK).
Félagar innan samtaka fiskframleiðenda ráða nú yfir meira en 90% af föstum kvóta fyrir England og Wales. Innan samtakanna eru aðallega stórar útgerðir. Vöntun á kvóta hefur hrjáð ýmsar sjávarbyggðir þar sem margar smærri útgerðir hafa ekki getað aflað sér nægilegs kvóta svo hagkvæmt sé að halda áfram útgerð.
Stórútgerðin hefur skilið eftir óveidd um 800 tonn af kvóta sínum um árabil. Umhverfis- og matvælaráðuneytið ákváð að gera þennan óveidda kvóta upptækan og deila honum út meðal smærri útgerða. Ráðgert er að taka þessar aflaheimildir af skipum sem eru 10 metrar eða lengri og úthluta á báta sem eru undir 10 metrum að lengd.