Eftir að Börkur NK hafði lokið við að landa 1300 tonnum af íslenskri sumargotssíld sl. laugardag var gert hlé á veiðum skipsins. Hléið er notað til ýmissa framkvæmda um borð. Í fyrsta lagi verður nótaleggjari skipsins endurnýjaður og komið fyrir mun öflugri leggjara en áður var. Í öðru lagi er unnið að gerð undirstaða fyrir búnað sem notaður verður til að dæla aflanum af skut en með tilkomu slíks búnaðar þarf ekki lengur að dæla afla úr trollpokanum af síðunni. Vindur og annar búnaður sem tengist skutdælingunni er væntanlegur í lok desembermánaðar og verður þá komið fyrir. Í þriðja lagi er unnið að ýmsum breytingum á vélbúnaði skipsins.

Frá þessu er skýrt á vef Síldarvinnslunnar.