Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu eru íslensku skipin búin að veiða rúmlega 521.000 tonn af loðnu á vertíðinni. Þetta eru um 76% af 685.000 tonna heildarkvóta, en áætlað verðmæti aflans gæti numið vel yfir 50 milljörðum króna. Af þessum afla fóru um 12.000 tonn í hrognavinnslu en um 85% loðnunnar fóru í mjöl- og lýsisvinnslu.

Alls sendu 11 útgerðir 22 skip til loðnuveiða á þessari vertíð. Skip Síldarvinnslunnar á Neskaupstað lönduðu um 111.000 tonnum, Ísfélag Vestmannaeyja náði sér í 91.000 tonn og Brim 83.000 tonn.

„Auðvitað var þetta bara mjög góð vertíð og mikið magn, en hún var erfið. Tíðarfarið var erfitt og skipstjórar höfðu áhyggjur af magninu og aldrei var nein alvöru kraftveiði, það var mikið fyrir þessu haft. En það hafðist nú samt að veiða töluvert mikið magn,“ sagði Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn.

Frekar endasleppt

„Þetta var frekar endasleppt á þeim tíma sem hrognavinnslan er, en ég held að menn hafi samt fryst einhver 12 þúsund tonn af hrognum. En eitthvað er mismunandi milli fyrirtækja hvernig menn hittu í það. Þannig að auðvitað hefðu menn viljað hafa það með öðrum hætti, bæði meira magni og líka betri gæðum. Og þetta var orðið dálítið sérstakt undir lokin, eins og er auðvitað oft. Fiskurinn kemur okkur á óvart, sem betur fer.“

Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, segir óhætt að fullyrða að framleiðslan hafi verið minni en menn vonuðust til.

„Endirinn á vertíðinni var eins og hún öll var,“ segir Stefán. „Hún var erfið veðurfarslega og þegar gaf á sjó þá var yfirleitt ekki góð veiði. Þannig að þetta var minna og veðrið setti strik í reikninginn, og svo hvernig loðnan virtist vera dreifðari en oft áður, hvort sem það var veðrinu að kenna eða einhverju öðru.“

Hann neitar því þó ekki að vel hafi aflast.

„Þetta er alveg ágætis magn þó kvótinn hafi ekki náðst,“ segir Stefán. „Maður veit ekki alveg hvernig veiðin hefði orðið ef við hefðum fengið betra veður. Þannig að næst er bara að undirbúa sig fyrir næstu vertíð sem menn telja að geti orðið gjöful, samkvæmt fiskifræðingunum alla vega.“

Fín hrogn

Hvað hrognin varðar segir hann að gæðin á þeim séu fín.

„Já, ég held að allir framleiðendur séu á því að þeir hafi fengið góð hrogn í ár. Yfirleitt hefur verið góður þroski og bara skínandi hrogn, en þegar kom að hrognatímabilinu þá kom bara það sama upp, brælur og erfitt að eiga við þetta. Ég held að þetta sé versta veður á loðnuvertíði eins langt aftur og elstu menn muna, en menn muna nú ekkert endilega mjög langt.“

Afli vertíðarinnar varð sá mesti síðan 2011-12 þegar íslensku skipin veiddu 585.000 tonn. Aflinn nú er sjö sinnum meiri en veiddist síðasta vetur, en þá fengu íslensku skipin ekki nema tæp 71.000 tonn sem var engu að síður kærkomið eftir loðnubrest tvö ár í röð.