Fyrir rúmum mánuði síðan var tíu þúsund tonna þorskveiðikvóti sem eyrnamerktur var strandveiðum á þessu ári uppurinn og lauk þá veiðunum því enginn viðbótarkvóti var gefinn út eins og stundum hefur verið gert.
„Það kemur náttúrlega illa við lítið samfélag þegar þetta dettur út,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps.
Árneshreppur á Ströndum er fámennasta sveitarfélag landsins með aðeins 47 skráða íbúa í byrjun þessa árs. Þar skapast hins vegar iðandi mannlíf á sumrin þegar ferðafólk fer á stjá og strandveiðimenn mæta til að gera út frá Norðurfirði þar sem stutt er á gjöful fiskimið.
Líf og fjör og vitlaust að gera
Sumir þessara sjómanna gista í sveitinni en aðrir jafnvel í bátum sínum. Þeir eiga viðskipti við búð Verzlunarfélags Árneshrepps á staðnum og margir þeirra eru kostgangarar á sumarveitingastaðnum Kaffi Norðurfirði. Veiðarnar eru líka sagðar tryggja vöruflutninga fjórum sinnum í viku sem annars sé aðeins ein ferð í viku. Þessi umsvif eru mikilvæg fyrir byggðina.

„Þetta skapar líf og fjör við höfnina og það er alltaf vitlaust að gera. Það er alveg dásamlegt en svo dettur þetta niður bara sisvona. Það voru í kringum þrjátíu bátar hjá okkur þannig að það munar nú um það líf sem þeim fylgir,“ segir Eva. Þessir menn komi frá Hólmavík, Skagaströnd og frá Akureyri og annars staðar úr Eyjafirði.
„Það eru nokkrir eftir sem eru með byggðakvóta. Þeir ætla að halda áfram núna í ágúst að veiða hann,“ segir Eva.
Stjórnvöld standi við samninga
Þótt þessi staða skipti ekki meginmáli fyrir beinan fjárhag Árneshrepps segir Eva sveitarfélagið samt hafa góðar tekjur af höfninni og þá peninga geti þau notað í lagfæringar og umbætur á hafnarsvæðinu.
„En þetta er langverst fyrir sjómennina. Þeir eru sviptir tekjum,“ undirstrikar oddvitinn.
„Þetta er er bara alveg hábölvað að þetta detti út í nærri því tvö mánuði,“ segir Eva og vísar í að strandveiðar megi fara fram í tólf daga í mánuði í maí, júní, júlí og ágúst. Þær eru þó stöðvaðar er sameiginlegum heildarkvóta er náð.
„Það var samið um tólf daga í mánuði. Mér finnst það ætti að vera stjórnvalda að standa við þann samning sem þeir gerðu. Mér skilst að það sé til ónotaður kvóti sem er verið að þræta fyrir opinberlega,“ segir Eva sem kveðst hafa sent Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og þingmönnum Norðvesturkjördæmis erindi þegar veiðarnar voru stöðvaðar í júlí.
Fátt um svör og engin ráð
„Ég hef ekkert heyrt frá ráðherranum, hún hefur ekkert skrifað til baka,“ segir Eva sem kveður tvo stjórnarandstöðuþingmenn hafa svarað. „Þeir sögðu að þeim þætti þetta hábölvað en höfðu svo sem engin ráð.“
Eva segir að staða sem þessi ætti ekki að geta komið upp.
„Hvað heldurðu að fólk myndi segja ef það væri að vinna í búð fyrir sunnan og svo væri allt í einu sagt þegar komið er fram í júlí: Þið þurfið að hafa lokað í tvær vikur núna og í næsta mánuði verður bara alveg lokað hjá ykkur. Þetta er bara atvinnusvipting og þetta er tekjusvipting,“ segir oddvitinn í Árneshreppi.