Endanlega var gengið frá kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi hf. í Grindavík 1. desember síðastliðinn, að því er segir í færslu á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Ákvörðun um kaupin var tekin í júlímánuði sl. en samkeppniseftirlitið samþykkti þau nýverið.
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir að nú bíði það spennandi verkefni að samþætta starfsemi félaganna á sviði bolfiskveiða og -vinnslu. Ljóst sé að Vísir sé vel rekið fyrirtæki og muni tilkoma þess styrkja Síldarvinnslusamstæðuna með ótvíræðum hætti.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Vísir er rótgróið og öflugt fyrirtæki sem rekur bæði saltfiskvinnslu og frystihús í Grindavík auk þess að gera út sex fiskiskip. Floti fyrirtækisins samanstendur af þremur stórum línubátum, einu togskipi og tveimur krókaaflamarksbátum. Hjá Vísi starfa um 250 manns, 100 á sjó og 150 í landi.
Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, segir að eigendur fyrirtækisins hafi verið samstíga og mjög sáttir við ganga til samstarfs við Síldarvinnsluna

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
„Vísir var fjölskyldufyrirtæki og við komin á þau tímamót að horfa til framtíðar með rekstrarformið. Við teljum að það hafi verið mjög skynsamlegt að fá hlutabréf í Síldarvinnslunni í skiptum fyrir fyrirtækið og taka þannig þátt í áframhaldandi uppbyggingu bolfiskhlutans hér í Grindavík. Það er borin mikil virðing fyrir Síldarvinnslunni og menn treysta henni í hvívetna. Innan Síldarvinnslunnar og í eigendahópi hennar er að finna landsliðið í íslenskum sjávarútvegi. Þar er mikil reynsla og þekking. Það er tilhlökkunarefni að hefja störf innan samstæðu Síldarvinnslunnar og við lítum framtíðina björtum augum,“ segir Pétur Hafsteinn.