„Það gengur rólega, það eru endalausar brælur,“ segir Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki NK sem er nú á kolmunnaveiðum á Rockall-svæðinu vestur af Írlandi.

Börkur er búinn að vera á miðunum þar suður frá í fimm, sex daga að sögn Hálfdans, og gengið fremur illa enn sem komið er.

Tekst vonandi á endanum

„Það hefur bæði verið lítil veiði og miklar brælur aftur og aftur,“ segir Hálfdán. Útlitið sé því lélegt í augnablikinu. „En það er að skána veðrið og verður allt í lagi núna í vikunni held ég.“

Ásamt Berki eru einnig Beitir NK og Vilhelm Þorsteinsson EA á Rockall-svæðinu. „Þetta er allt á svipuðu nótum,“ segir Hálfdán um stöðuna á hinum íslensku skipunum.

Hálfdán segir þá verða eitthvað áfram og stefna að því að fylla þótt ekki sé hægt að gefa því endalausan tíma. „Það eru alltaf takmörk en vonandi tekst það á endanum.“