Ellefu grásleppubátar sem brutu reglur um fjölda neta í sjó í fyrra sluppu við sviptingu veiðileyfa. Stutt vertíð og ágalli í lögum gerir Fiskistofu nánast ókleift að beita brotlega báta þessum viðurlögum. Slík brot eru þó kærð til lögreglu og varða þau sektum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Grásleppubátar mega aðeins vera með ákveðinn fjölda neta í sjó. Eftirlitsmenn Fiskistofu stóðu nokkra báta að því að vera með of mörg net í sjó á síðustu vertíð. Voru þeir þá sviptir veiðileyfi samkvæmt ákvæðum laga og átti sviptingin að taka gildi á núverandi veiðitímabili þar sem vertíðin í fyrra var liðin þegar Fiskistofa tók ákvörðun í máli bátanna. Atvinnuvegaráðuneytið hefur með úrskurði ógilt ákvörðun Fiskistofu og segir að lög heimili aðeins sviptingu veiðileyfa innan sömu vertíðar og brotin eigi sér stað. Um er að ræða ákvæði laga er snertir tímabundin veiðileyfi, eins og leyfi til grásleppuveiða og strandveiðileyfi.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.