Ellefu fiskeldisstöðvar eru skráðar á Vestfjörðum. Ein stöð er stór á íslenskan mælikvarða, Fjarðalax ehf. á sunnanverðum Vestfjörðum, en þrjú til fjögur önnur munu líklega vaxa umtalsvert á næstu árum. Heildarframleiðsla er tæplega 5.000 tonn en mun væntanlega þrefaldast eða fjórfaldast á næstu árum.Fjöldi starfsmanna við fiskeldi á Vestfjörðum er um 45 auk afleiddra starfa, að því er segir í stöðugreiningu Byggðastofnunar sem nýlega hefur verið kunngerð og sagt er frá á vefnum bb.is
Kræklingaeldi er á Gróustöðum við Gilsfjörð og í Steingrímsfirði. Laxeldi er á Haganesi á Bíldudal, Gilseyri í Tálknafirði og í Arnarfirði, Tálknafirði og í Patreksfirði.
Þá er seiðaeldi fyrir regnbogasilung á Tálknafirði, Dýrafirði, Önundarfirði, Nauteyri við Ísafjarðardjúp og í Skutulsfirði og bleikjueldi er í Patreksfirði. Einnig er þorskeldi í Bolungarvík, Álftafirði og í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi.