Snemma í morgun, upp úr hálf fimm, var björgunarsveitin á Húsavík ásamt björgunarbátnum Villa Páls boðuð út á hæsta forgangi vegna tilkynningar frá smærri fiskibát sem var þá staddur norður af Tjörnesi um eld í brú bátsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu sem segir að strax í kjölfarið hafi björgunarskipið Gunnbjörg á Raufarhöfn verið boðað út og skömmu síðar björgunarskipinu Sigurvin frá Siglufirði verið bætt við.

„Fljótlega eftir tilkynningu skipverja komu þó frá þeim þær fréttir að þeim hefði að öllum líkindum tekist að slökkva eldinn og myndu halda í átt til Húsavíkur á rólegri siglingu. Villi Páls flutti fimm slökkviliðsmenn frá Húsavík að bátnum og í kjölfarið fór Flatey ÞH með 3 aðra slökkviliðsmenn og búnað frá Húsavík,“ segir í tilkynningunni.

Síðan segir að þegar klukkan hafi verið fimmtán mínútur í sex í morgun hafi fyrstu bjargir komið á vettvang og slökkviliðsmenn úr Villa Páls hafi farið um um borð í fiskibátinn.

„Enginn eldur fannst, né óeðlilegur hiti um borð. Þá var dregið úr viðbúnaði og Sigurvin og Gunnbjörgu snúið við til heimahafnar. Villi Páls og Flatey fylgdu svo bátnum inn til Húsavíkur þangað sem skipin komu klukkan hálf níu í morgun,“ segir í fyrrgreindri tilkynningu.