Hafrannsóknastofnun segir tölur úr hálfrar aldar gamalli skýrslu um hámarksafrakstur upp á 500 þúsund tonn af þorski verar fjarri öllu nútímamati.
Þetta kemur fram í umfjöllun undir heitinu Um aflareglur og mat á jafnstöðuafla þorsks á vef Hafrannsóknastofnunar.
„Af og til síðustu áratugi hafa birst staðhæfingar í miðlum um að Hafrannsóknastofnun hafi spáð eða lofað að jafnstöðuafli í þorski, ef fylgt væri aflareglu yrði 350 þúsund tonn. Einnig hafa verið rifjaðar upp tölur úr hálfrar aldar gamalli skýrslu um hámarksafrakstur upp á 500 þúsund tonn. Þessar tölur eru því miður fjarri öllu nútímamati á jafnstöðuafla þorskstofnsins við Ísland, en í hermunum frá árinu 2021 er hann metinn um 230 þúsund tonn á ári. Hér verður í stuttu máli farið yfir sögu aflaregluvinnu varðandi þorsk, segir á vef Hafrannsóknastofnunar.
Hér má lesa framhald umfjöllunar Hafrannsóknastofnunar um málið:
Aflareglur
Aflareglur í þorski voru fyrst skoðaðar í upphafi 10. áratugs síðustu aldar (1994) og hafa síðan verið endurrýndar 4 sinnum (2004, 2009, 2015 og 2021). Í fyrirliggjandi skýrslum, sem eru aðgengilegar á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar hér og hér koma fram ítarlegar upplýsingar um forsendur sem og niðurstöður þessarar vinnu. Markmið með hermunum er ekki að spá nákvæmlega fyrir um þróun í framtíðinni, hvorki í stofni né afla, heldur fyrst og fremst að meta hvaða veiðihlutfall gefur líklegan hámarksafrakstur til lengri tíma litið. Á síðari tímum að teknu tilliti til þess að litlar líkur séu á að stofninn fari undir mörk þar sem nýliðun fer að öllum líkindum minnkandi.
Aflaregluhermanir byggja í grunni á sömu gögnum og líkani og ákvarðanir um aflamark hvers árs. Munurinn er að í síðarnefnda tilvikinu eru grunnþættir, s.s. nýliðun og líkleg meðalþyngd í afla næsta árs, betur þekkt og óvissan því mun minni. Í aflaregluhermunum, þar sem skoðaðar eru sviðsmyndir til lengri tíma þarf m.a. að gefa sér líklega nýliðun framtíðarinnar. Framtíðarnýliðun er ákveðin meðalnýliðun sem fall af hrygningarstofni þar sem breytileiki og fylgni milli ára eru ákvörðuð með slembivali. Það sama á við um meðalþyngdir.
Eldri aflaregluvinna
Þessi gildi eru síðan grunnur að hermunum sem sýna áætlaða þróun stofns og afla í marga áratugi. Ferlið er margendurtekið og hver hermun sýnir mögulega þróun stofnstærðar og afla. Niðurstöðurnar eru yfirleitt teknar saman í línuriti sem sýna þróun meðaltals og mismunandi hlutfallsmarka í tíma byggt á öllum hermunum. Að auki er reynt að sýna nokkra einstaka ferla til að minna á að ekki sé verið að lofa stöðugleika sem kemur fram í myndum byggðum á öllum hermununum. Oft eru fleiri en ein meðalnýliðun prófuð til að meta áhrif þessa óvissu framtíðarinnar á aflareglur.
Fyrsta aflareglunefndin starfaði á árunum 1991 til 1993 og lauk störfum með lokaskýrslu sem kom út árið 1994. Helstu niðurstöður nefndarinnar voru fyrst og fremst að draga þyrfti verulega úr sókn undangenginna ára og að til lengri tími litið myndi 22% veiðihlutfall leiða til skynsamlegrar nýtingar á stofninum. Fram kemur í skýrslunni að langtímaafrakstur (meðalafli) með slíku veiðihlutfalli gæti orðið um 350 þúsund tonn, og var það byggt á þá fyrirliggjandi meðalnýliðun þorskstofnsins á árabilinu 1955-1990. Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að „Ekki er ráðlegt að leggja mjög mikla áherslu á að einstakar tölur, t.d. um langtímaafrakstur, heldur ber fyrst og fremst að athuga samanburð á mismunandi aflareglum og fá þannig vísbendingar um, hvert sé skynsamlegt að stefna við nýtingu þeirra stofna sem hér eru til umfjöllunar.“
Þegar aflareglunefndin birti niðurstöður sínar árið 1994 lá ekki fyrir að nýliðun í þorski hefði lækkað til frambúðar eftir árið 1985. Önnur aflareglunefndin, sem birti niðurstöður sínar árið 2004 skoðaði hins vegar þá breyttu sviðsmynd. Þar kemur fram:
„Niðurstaða um 22% veiðihlutfall er óháð því hvort gert er ráð fyrir að umhverfisaðstæður hafi breyst varanlega til hins verra frá því sem áður var eða hvort gera má ráð fyrir að þær fari batnandi og nýliðun verði aftur eins og á árunum fyrir 1985. Ef nýliðun verður eins og á undanförnum fimmtán árum þá þýðir þetta að meðalafli verður um 210-220 þúsund tonn á ári. Ef uppbygging hrygningarstofns og/eða betri umhverfisskilyrði leiða til þess að nýliðun verður svipuð og á áratugunum fyrir 1985 þá verður meðalafli um 310-320 þúsund tonn á ári með 22% aflareglu.“ (sjá hér, bls. 4-5).
Í skýrslu Alþjóðahafrannsóknaráðsins frá árinu 2009 voru prófaðar yfir 10 mismunandi forsendur um nýliðun framtíðarinnar, bæði líklegra sem og ólíklegra. Að auki voru skoðuð tvö afbrigði af framtíðar meðalþyngdum eftir aldri. Eðli málsins samkvæmt gáfu þessi afbrigði yfir 20 mismunandi fyrirheit um framtíðar meðalafla, það lægsta var meðalafli upp á um 190 þúsund tonn og það hæsta 350 þúsund tonn, lægsta gildið ef nýliðun var innan ramma þess sem sést hafði síðan 1985. Í skýrslunni frá 2009 var niðurstaðan sú sama og fram kom í skýrslunni frá árinu 2004 að skynsamlegt veiðihlutfall í þorski er að mestu óháð forsendum um nýliðun framtíðarinnar, og þar með afleiddum tölum um meðalafla.
Meint fyrirheit um 350 þúsund tonna afla, hvað þá stöðugan var síðast skýrt að finna í skýrslu sem gerð var fyrir meira en 30 árum síðan. Strax var þó tekið fram að aflaregluhermanir væri fyrst og fremst tól til að fá vísbendingar um skynsamlegt veiðihlutfall sem ákvörðunartæki um aflamark hvers árs, en ekki tól til að spá um væntanlegan framtíðar meðalafla. Síðari skýrslur hafa verið af sama meiði.
Eldri skýrslur
Í umræðu um afrakstur þorskstofnsins hefur gömul skýrsla stundum verið rifjuð upp, oft nefnd „svarta skýrslan”, sjá hér en hún kom út árið 1975. Þar stóð um afrakstur þorsksins: „Talið er að hámarksafrakstur þorskstofnsins sé nær 500 þús tonn á ári.” Það mat byggði á einföldum útreikningum og er barn síns tíma. Aðal umfjöllunarefni skýrslunnar, sem skrifuð var þegar það hillti undir útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur, var að benda á að mikilvægustu fiskistofnar okkar væru þegar ofveiddir. Hún lagði áherslu á aðgerðir varðandi lágmarks löndunarstærð, lokun eða friðun veiðisvæða, ákvæði um hámarksafla, gerð veiðarfæra og um leyfisveitingar. Margt sem kom fram í henni og var framkvæmt síðar reyndist gæfuspor og er hún mikilvægt innlegg í sagnfræði auðlindanýtingar.