Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir óskýrleika í hafnalögum enn skapa vanda fyrir sveitarfélög þar sem rekin eru fiskeldisfyrirtæki þrátt fyrir lagabreytingu í vor.

Vesturbyggð tapaði í fyrra dómsmáli gegn Arnarlaxi þar sem deilt var um innheimtu gjalds á landaðan eldislax. Sveitarfélagið hafði í ársbyrjun 2020 hækkað gjaldið úr 0,6 prósentum af söluverðmæti laxins í 0,7 prósent. Arnarlax sætti sig ekki við þá hækkun og um það snerist dómsmálið. Héraðsdómur komst reyndar að því að ekki væri lagastoð fyrir innheimtu þessa gjalds yfirhöfuð.

Biðstaða í Landsrétti

Vesturbyggð áfrýjaði dóminum til Landsréttar í lok nóvember í fyrra og þar hefur málið enn ekki verið sett á dagskrá. „Það er ekki útlit fyrir að það verði fyrr en í vor,“ segir Gerður.

Hafnalögum var breytt í vor og bætt inn í þau lið um svokallað eldisgjald. Gerður segir þetta ákvæði gallað og óskýrt.

Ætlað að innheimta algerlega út í loftið

„Sveitarfélögum er ætlað, bara algjörlega út í loftið, að innheimta gjald af lönduðum
eldislaxi án þess að vera með nokkurt viðmið. Krafan frá okkur var að þetta yrði sama aðferðafræði og er notuð fyrir annan afla sem er landað,“ segir Gerður. Þetta sama hafi Hafnasambandið og Samtök sveitarfélaga í sjávarútvegi bent á. „En það var ekkert hlustað á það.“

Með því að lögin setji það í hendurnar á sveitarfélögunum að ákvarða gjaldið án þess að hafa ramma að styðjast við standa þau að sögn Gerðar frammi fyrir því flókna verkefni að reikna út gjald sem endurspegli kostnað við veitta þjónustu. „Við myndum vilja hafa einhvern ramma eins og er gert með aflagjaldið þar sem viðmiðið er 0,7 upp í 3 prósent.“

Starfsemi sem passar ekki inn í löggjöfina

Gerður undirstrikar að samskipti Vesturbyggðar og eldisfyrirtækjanna séu góð. „En við náttúrlega sitjum uppi með þetta verkefni að móta gjaldskrá byggða á löggjöf sem er gölluð. Það er þessi heildarendurskoðun á hafnalögunum sem eldissveitarfélögin og Hafnasambandið og fleiri hafa bent á að þarf að eiga sér stað, að því að þessi starfsemi passar ekki inn í löggjöfina eins og hún er. En þetta er bara eitthvað sem við þurfum að leysa.“