Framboð á eldisfiski frá Asíu, einkum tilapíu og pangasíus, hefur farið ört vaxandi á liðnum árum og keppir hann við villtan hvítfisk úr veiðum.
Tilapíuflök eru t.d. boðin til sölu af stórfyrirtækinu High Liner undir vörumerki Icelandic í Bandaríkjunum á svipuðu verði og sjófryst flök, að því er fram kom í erindi Steindórs Sigurgeirssonar framkvæmdastjóra á Sjávarútvegsráðstefnunni á dögunum. High Liner er sem kunnugt er kanadíska fyrirtækið sem keypti starfsemi Icelandic Group í Bandríkjunum og heldur utan um Icelandic vörumerkið þar í landi.
Steindór lýsti þeirri skoðun sinni að í markaðsstarfi á Vesturlöndum væri alltof lítill greinarmunur gerður á villtum heilbrigðum fiski úr hreinum sjó og eldisfiski frá Kína og fleiri Asíulöndum sem framleiddur væri við misheilnæmar aðstæður.
Nánar er fjallað um erindi Steindórs í nýjustu Fiskifréttum.