Eldi á pangasíus í Víetnam, helsta framleiðslulandi þessarar vinsælu eldistegundar, mun dragast saman á þessu ári og verður að líkindum ,,ekki nema“ 800 þúsund tonn samanborið við 1,3 milljónir tonna á síðasta ári.
Verðmæti framleiðslunnar nam 1,74 milljörðum dollara í fyrra eða jafnvirði 226 milljarða íslenskra króna. Áætlað er að verðmætið í ár verði í kringum 200 milljarðar ISK.
Eldi á pangasíus í Víetnam hefur átt við mikla erfiðleika að stríða síðustu misserin vegna aukins tilkostnaðar og lækkunar á verði.
Auk verðlækkana drógu sjö af tíu helstu mörkuðum Víetnama fyrir pangasíus úr innkaupum sínum á síðasta ári, þeirra á meðal Evrópusambandsríkin, Bandaríkin, Kína og Egyptaland.
Pangasíus er sem kunnugt er seldur í samkeppni við villtan hvítfisk og boðinn sem ódýrari valkostur.