Ekki reyndist mikið magn af loðnu í vesturgöngunni og ekki ástæða til að auka loðnukvótann, að því er fram kemur í frétt frá Hafrannsóknstofnun.

Eins og kunnugt er hafa loðnuskip verið að veiðum á Vestfjarðamiðum undanfarna daga úr loðnugöngu sem þar fannst fyrr í þessari viku. Skip Hafrannsóknastofnunar, Árni Friðriksson fór til mælinga á göngunni í gær. Lauk þeirri mælingu snemma í morgun. Enda þótt endanlegum útreikningum sé ekki lokið sýna mælingarnar að ekki sé um að ræða verulegt magn.
Mælingar Hafrannsóknastofnunar á veiðistofninum síðastliðið haust leiddu til þess að gefið var út 160 þúsund tonna aflamark fyrir yfirstandandi vertíð. Hvorki mælingar stofnunarinnar í febrúar né ofangreindar mælingar á Vestfjarðarmiðum síðastliðinn sólarhring gefa tilefni til að breyta þeirri ákvörðun, segir ennfremur í frétt frá Hafrannsóknastofnun.