Hafrannsóknastofnunin hefur metið klóþangsstofninn í Breiðafirði út frá mælingum sem voru framkvæmdar árin 2016-2017. Ráðgjöf um aflamark hefur verið gefin út á grundvelli varúðarnálgunar og er miðað við að aflinn verði ekki meiri en 3% af heildarstofninum.

Stofnunin ráðleggur í samræmi við varúðarsjónarmið að heildartekja klóþangs í Breiðafirði árin 2018-2022, verði ekki meiri en 40.000 tonn á ári.

Í frétt á vef Hafró segir að stofnstærðarmat, framkvæmt í Breiðafirði, bendir til að um 1.37 milljón tonn af klóþangi sé í firðinum. Í ljósi varúðarsjónarmiða miðast ráðgjöf við 3% af því mati. Verði þangtekja samkvæmt þessu mun það leiða til um það bil tvöföldunar á magni klóþangs sem tekið er árlega úr Breiðafirði. Þetta nýtingarhlutfall er þó mun lægra en miðað er við í Kanada, enda er vöxtur klóþangs hægari hér við land.

Síðan 1975 hefur klóþangs eingöngu verið aflað í Breiðafirði. Uppskeran hefur frá 1980 oftast verið á bilinu 10.000 til 18.000 tonn á ári.

Vex umhverfis Ísland

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar - Klóþang í Breiðafirði útbreiðsla og magn – segja þau Karl Gunnarsson, Julian Bourgos, Lilja Gunnarsdóttir, Svanhildur Egilsdóttir, Gunnhildur I. Georgsdóttir og  Victor F. Pajuelo Madrigal frá rannsókninni sem vísað er til í texta ráðgjafarinnar.

Þar segir að klóþang sé ríkjandi tegund í skjólsælum og miðlungsbrimasömum fjörum við allt Norður-Atlantshaf. Við strendur Evrópu vex það frá Hvítahafi suður til Portúgal og Ameríkumegin frá Baffinslandi í Norðaustur-Kanada suður til New York fylkis í Bandaríkjunum.

Þar segir jafnframt að klóþang vex umhverfis allt Ísland og er líklega sú tegund lífvera sem mest er af í fjörum hér við land. Klóþang er fjölær planta sem vex tiltölulega hægt og getur orðið að minnsta kosti 50 til 60 ára gömul.

Nýtt hér um aldir

Um þessar mundir er klóþang nýtt í talsverðum mæli á austurströnd Kanada, við Maine á norðausturströnd Bandaríkjanna, við strendur Frakklands, Írlands og Skotlands, í Noregi auk Íslands. Ýmist er það handskorið (Kanada, Frakkland og Írland) eða skorið með mismunandi gerðum sérútbúinna þangsláttupramma, eins og í Maine í Bandaríkjunum, Skotlandi, Noregi og Íslandi. Stærstur hluti af þanginu fer til framleiðslu gúmmíefnisins algínats en það fer einnig til framleiðslu á áburði, fóðri og fleiru.

Klóþang hefur verið nýtt hér við land um aldir. Allt fram í byrjun 20. aldar var notkunin fyrst og fremst sem eldsneyti, til eldunar og húshitunar. Árin 1939-41, 1959 og síðast 1968 voru gerðar tilraunir með þangskurð og framleiðslu þangmjöls á Eyrarbakka og Stokkseyri en framleiðslan var skammvin.

Árið 1975 hófst þangskurður og framleiðsla þangmjöls á Reykhólum við Breiðafjörð. Síðan þá hefur verið samfelld nýting á klóþangi í Breiðafirði. Á síðustu tveimur áratugum hefur uppskeran oftast numið milli 15 og 20 þúsund tonnum af klóþangi á ári. Á undanförnum árum hefur áhugi á nýtingu þörunga almennt, aukist um allan heim. Það á einnig við um nýtingu þangs.

Lögum breytt
Í framhaldi af áformum um aukna þangtekju í Breiðafirði ákváðu stjórnvöld að setja lög og reglur um sjálfbæra nýtingu sjávargróðurs í atvinnuskyni. Árið 2016 var lagt fyrir Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, um stjórn fiskveiða og um veiðigjald þar sem bætt er við ákvæðum um nýtingu sjávargróðurs en lítið sem ekkert var minnst á sjávargróður í fyrri lögum.