Rannsóknaverkefni sem hefur það markmið að kortleggja strauma, súrefnisstyrk og ástand sjávar í Kolgrafafirði hófst vorið 2013 og lauk þeirri gagnasöfnun nú í aprílmánuði. Þar voru notaðar straumsjár og síritandi súrefnismælar ásamt sondumælingum o.fl. Síritandi tæki til mælinga á súrefnisstyrk, hita og seltu var í firðinum frá nóvember til maí og birtust gögnin í rauntíma á netinu.
Næstkomandi fimmtudag flytur Sólveig Ólafsdóttir erindi í málstofu Hafrannsóknastofnunar sem nefnist: Vöktun í Kolgrafafirði í kjölfar síldardauða. Erindið verður flutt kl. 12:30 í fundarsal á fyrstu hæð að Skúlagötu 4 og eru allir velkomnir.
Vöktun í Kolgrafafirði í kjölfar síldardauða.
Á vef Hafrannsóknastofnunar er rifjað upp að frá því er síldardauði varð í Kolgrafafirði í desember 2012 vegna súrefnisþurrðar hefur umhverfisástand og magn síldar í firðinum verið vaktað og náið hefur verið fylgst með styrk súrefnis. Frá desember 2012 til apríl 2013 var farið í 6 rannsóknaleiðangra í fjörðinn til vöktunar á umhverfinu auk ítrekaðra mælinga á magni síldarinnar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)