Óvenjuleg staða hefur verið hjá uppsjávarflotanum að undanförnu. Stöðugar brælur hafa hamlað mjög kolmunnaveiðum við Færeyjar og meðan ekki finnst loðna liggja skipin verkefnalaus við bryggjur. Bergur Einarsson, skipstjóri á Venusi NS, uppsjávarskipi Brims, kveðst ekki muna eftir annarri eins stöðu frá því hann hóf sjómennsku.
„Það er ekki mikið að gera þessa dagana og ég hef ekki upplifað neitt þessu líkt frá því ég byrjaði. En hún er til þessi loðna en göngurnar hafa breyst,“ segir Bergur sem fór á sína fyrstu loðnuvertíð 2001 og þá á Hoffellinu.
Venus fór á kolmunnaveiðar til Færeyja 3. janúar og kom aftur heim 21. janúar eftir barning í brælum. Síðan þá hefur skipið verið bundið við bryggju.
„Við náðum á þessum tíma að taka þrjú fullorðinshol og náðum svo einu sex tíma holi. Það var nú allt og sumt á þessum 20 dögum. Það voru hörð veður allan tímann og vorum við mest í vari í Færeyjum. Tvisvar fórum við í var við Suðurey þannig að við vorum lítið við veiðar. Það komu bara litlar eyður sem eitthvað var hægt að gera og við vorum með rúm 900 tonn eftir allan þennan tíma.“
Bónus ef loðna finnst
Bergur segir að eins og staðan sé núna geri menn sér ekki miklar vonir um að nægilegt finnist af loðnu til að veiðar hefjist. Hann segir að það hefði að sínu mati mátt fylgja þessari leit betur eftir. Nú sé ekki fyrirhuguð önnur leit fyrr en um mánaðamótin. Það verði bara bónus ef loðna finnst.
Önnur verkefni framundan eru kolmunnaveiðar á alþjóðlega hafsvæðinu suðvestur af Írlandi sem gætu hafist eftir fyrstu vikuna í febrúar. Bergur fór um mánaðamótin janúar-febrúar í fyrra og segir að það hafi verið of fuusnemmt. Yfirleitt hefjist veiðin fyrir alvöru eftir fyrstu vikuna í febrúar. 700-800 mílna stím er á miðin og yfirleitt hafi verið góð veiði þarna í um þrjár vikur þar til kolmunninn fer inn í írsku lögsöguna.
Loðnan undir ís?
„Það er eitthvað sem við erum ekki að gera rétt í sambandi við mælingar á loðnunni. Við bara sjáum hana ekki og spurning hvort hún sé undir ís úti fyrir Norðurlandi. Svo gæti það verið að hún gangi seint og fari ekki suður fyrir landið. Í hitteðfyrra voru tvær stórar göngur úti fyrir Norðurlandi. Önnur þeirra hafði legið nokkuð lengi á Sporðagrunni og við höfðum beðið eftir að hún kæmi upp. Á sama tíma var önnur stór torfa við Grímsey. Ég veit ekki hvað varð um hana en ég elti hina frá Sporðagrunni inn á Húnaflóann þegar önnur skip voru hætt veiðum. Þetta var hrygningarloðna og var ekki að fara neitt annað en upp að landinu. Hún tók strauið beint upp í fjöru og hefði aldrei komist suður fyrir landið. Við náðum tveimur túrum þarna og það voru bestu hrognatúrarnir okkar þá vertíð. Ég veit ekki hvort leitarskipin komist nægilega norðarlega að leita loðnu vegna íss. Loðnan gæti hæglega verið undir ís. En ég met líkurnar fremur litlar að loðna finnist þótt ekki megi afskrifa það. En við vitum að þetta getur gosið upp öllum að óvörum og það yrði þá bara góður lottóvinningur,“ segir Bergur.