„Ég veit ekki hvaða afleiðingar þetta hefur hér, sjáum við þær nokkuð fyrr en eftir mitt næsta ár?“ segir Trausti Jörundarson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, um möguleg áhrif hækkunar veiðigjalda.
Trausti segir erfitt að átta sig hvað þýðingu hækkunin muni hafa fyrir hans félagsmenn. Það sé óvissa fram undan.
„Það hlýtur að þurfa að veiða fiskinn og metta þá markaði sem fyrirtækin eru með. Þá veltir maður fyrir sér hvaða afleiðingar þetta geti haft. Geta þeir fiskað það sem þeir eru að fiska á færri skip? Ég efast um það,“ segir Trausti. Útgerðin í landinu hafi í heild sinni verið sett upp í loft.
„Það er alltaf talað um þessi fimm stærstu útgerðarfélög en þau eru ekki með afnot af nema 35,6 prósentum af kvótanum. Hvað með hin fyrirtækin sem eru með þessi tæpu 65 prósent? Hvaða áhrif hefur þetta á þessi minni útgerðarfélög sem eru ekki að skila þessum milljörðum eftir veiðigjöld í hagnað heldur kannski hundrað milljónum?“ veltir Trausti fyrir sér.
Hver verður hvatinn?
„Mér finnst athyglisverðast í þessu hvað verður um þessar útgerðir, til dæmis á Patreksfirði sem er að skila 200 milljónum í hagnað eftir allan kostnað og veiðigjöld. Hver er hvatinn að reka fyrirtækið ef það fer niður í 100 milljónir? Hvað gerist með Snæfellsnesið? Það er engin stórútgerð á Snæfellsnesi en það er hellings útgerð þar samt,“ segir Trausti og minnir á að öll fyrirtækin séu ekki eins stöndug og til dæmis Samherji, Brim og Síldarvinnslan.
„Ég held að þetta sé ekki til framdráttar fyrir okkur sem erum í þessum bransa,“ segir Trausti. Menn séu að fara fram úr sér. „Ég varð ekki var við það í kosningabaráttunni að nokkur stjórnmálaflokkur ætlaði að gera þetta svona. Þeir ætluðu að gera þetta í þrepum í samvinnuvið greinina.“ Sérstakt sé að að fara í svona mikla hækkun á einu bretti.
„Þetta er högg. Þó að það séu einhver fyrirtæki sem geta borgað þetta þá á þetta ekki við þau öll,“ segir Trausti og spyr hvers vegna ekki sé hægt að hlusta þá sem séu í greininni.
Vildu borga í þrepum
„Það hefur komið frá SFS að þau séu alveg tilbúin að borga en að það sé kannski gert í þrepum. En það er bara ekkert hlustað. Ég er alveg sannfærður um að þau geta borgað meira en ég er ekki sannfærður um að þetta sé rétta leiðin,“ segir Trausti og spyr hverju sé verið að fórna til að koma sjö til átta milljarða smámáli í gegn.
„Ef við horfum bara á Norðurland þá erum við hér með Samherja sem er mjög stórt útgerðarfélag og mjög vel rekið. Ég veit ekki um neinn mann sem er óánægður að vinna hjá Samherja. Það fá allir útborgað og það eru góð laun. Á núna að borga helmingi meira í þetta veiðigjald og ríkisstjórnin segir að þetta eigi að fara í innviðauppbyggingu í landshlutanum? Sjá menn fyrir sér að við fáum tvöfalda hraðbraut til Dalvíkur eða eitthvað slíkt fyrir þennan pening? Ég sé það ekki gerast og ég veit hvert þessi peningur fer eins og allt; hann fer í heilbrigðisþjónustuna eins og allt. Mér finnst þetta illa unnið. Afleiðingarnar sjáum við ekki fyrr en um mitt næsta ár,“ segir formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar.