Á fundi starfsmannafélags Hafrannsóknastofnunar fyrir helgina var samþykkt ályktun þar sem hörmuð var sú stefnubreytingu að haustrall væri í ár framkvæmt af leiguskipum á meðan rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar liggi bundin við bryggju. Starfsmenn hafa áhyggjur af því að hér sé verið að skapa fordæmi þar sem leiguskip séu tekin fram yfir rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar sem séu sérhönnuð til vísindarannsókna og hafi alfarið sinnt haustrallinu hingað til.

Starfsmenn benda á að þetta fyrirkomulag feli ekki í sér sparnað. Andvirði aflamarks (786 þorskígildistonn) og afla sem ríkið lætur tveimur útgerðum í té sé um 200 milljónir kr.  Rekstrarkostnaður vegna úthalds rannsóknaskipanna til verksins sé á hinn bóginn áætlaður um 25 milljónir kr.

Fundurinn lýsir yfir sérstökum áhyggjum af langvarandi niðurskurði til Hafrannsóknastofnunar sem veldur því að stofnunin er komin í þá stöðu sem raun ber vitni og á erfitt með að sinna lögbundnu hlutverki sínu.