Norðmenn sjá fram á lítinn hagnað af loðnuvertíðinni. Þeir eru ósáttir við þær takmarkanir sem veiðum þeirra eru settar, en vilji þeir breytingar þurfa þeir að taka það upp á næsta samningafundi.

Norðmenn sjá fram á lítinn hagnað og jafnvel tap af loðnuveiðum við Íslands á yfirstandandi vertíð, að því er fram kemur í umfjöllun norska blaðsins Fiskeribladet.

„Það eru 23 sólarhringar frá því við fórum af stað í þessar veiðar og þetta er fyrsti aflinn fyrir utan svolítinn reyting sem við höfum áður landað á Íslandi,“ hefur Fiskeribladet í Noregi eftir Egil Sørheim, norskum útgerðarmanni skipsins Selvåg Senior sem hafði veitt 1335 tonn af loðnu við Ísland um helgina og sigldi heim til Noregs með aflann.

Hann reiknaði með því að fá 3,5 til 4 milljónir norskra króna fyrir aflann, þar sem verðið er 2,80 krónur norskar á kílóið. Á síðasta ári fengu norsku skipin 14,50 norskar krónur fyrir kílóið og hefðu fengið allt að 20 milljónir norskar fyrir þennan afla. Þarna munar um 16 milljónum norskra króna, eða um 220 milljónum íslenskra.

Samkvæmt reglugerð, sem gefin var út í lok síðasta árs og byggð á bráðabirgðaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, er norskum skipum heimilt að veiða samtals 145.383 tonn í fiskveiðilandhelgi Íslands. Endanleg ráðgjöf hefur ekki verið gefin út, en í tveggja vikna loðnuleiðangri Hafrannsóknastofnunar tókst ekki að ná almennilega utan um stofninn.

Norðmenn eru nú búnir að veiða rúmlega 30.000 tonn, eða ríflega fimmtung, og samkvæmt reglugerðinni mega þeir ekki veiða lengur en til 22. febrúar. Ljóst er að þeim tekst varla að ná því sem eftir er á þeim tæplega tveimur vikum sem eftir eru af veiðitímabili þeirra.

Erindi frá Norðmönnum

Norsku útgerðarsamtökin Fiskebåt hafa á síðustu vikum tvisvar sent norskum stjórnvöldum bréf þar sem farið er fram á að þau beiti sér fyrir því að íslensk stjórnvöld liðki til með veiðum Norðmanna. Samtökin vilja að norsku skipin fái sama sveigjanleikann við veiðarfæraval og skip annarra þjóða, eða í það minnsta að veiðitímabil þeirra verði lengt til 10. mars og veiðisvæðið stækkað.

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælaráðuneytinu, sem svo heitir nú og er með sjávarútvegsmál á sinni könnu, stendur ekki til að verða við slíkum óskum. Norðmenn hafi vissulega leitað með óformlegum hætti til ráðuneytisins, en vilji þeir að gerðar verði breytingar á milliríkjasamningum um loðnuveiðar hér við land, þá þurfi að taka þær óskir upp með formlegum hætti á næsta samningafundi ríkjanna. Vertíðin sé vel á veg komin og langt síðan gengið var frá samningum um veiðina.

Samkvæmt gildandi samningum er Norðmönnum aðeins heimilt að stunda loðnuveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands norðan við 64°30´N, sem þýðir að þeir verða að halda sig á svæðinu fyrir austan land og geta ekki fylgt loðnunni eftir þegar hún færir sig suður fyrir og verður verðmætari. Þá mega þeir aðeins veiða loðnuna í nót en ekki troll eins og Íslendingum og Grænlendingum leyfist.

Gildandi samningar

Heimildir Norðmanna til loðnuveiða hér við land eru byggðar annars vegar á loðnusamningi Íslendinga, Grænlendinga og Norðmanna og Smugusamningnum milli Íslendinga, Norðmanna og Rússa.

Samkvæmt loðnusamningnum eiga Norðmenn rétt á 5% heildaraflans, sem gefur þeim 45.200 tonn miðað við bráðabirgðaráðgjöfina upp á 904.000 tonn. Samkvæmt Smugusamningnum mega þeir svo veiða 30.867 tonn. Að auki fá Norðmenn loðnukvóta frá Evrópusambandinu, sem þetta árið nemur 69.623 tonnum, en á móti fá skip Evrópusambandsins að veiða 10.215 tonn af þorski í norskri lögsögu.

Í rammasamkomulaginu frá 2018 um loðnuveiðar sömdu Íslendingar, Grænlendingar og Norðmenn um að Íslendingar fái 80% heildaraflans, Grænlendingar 15% og Norðmenn 5%. Að auki eru þar ákvæði sem takmarka veiðar Norðmanna og Grænlendinga innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi þannig að norsk skip megi einungis veiða loðnu norðan við breiddargráðu 64°30´N, en Grænlendingar megi eftir 15. febrúar fara suður fyrir þessa breiddargráðu. Veiðitímabil bæði Íslendinga og Grænlendinga stendur út apríl en Norðmenn verða að hætta veiðum 22. febrúar.

Forsagan

Þríhliða rammasamkomulag Íslands, Grænlands og Noregs um loðnuveiði á sér áratuga langa forsögu. Hlutföll ríkjanna innbyrðis hafa breyst, þannig var Ísland áður með 81%, Grænland 11% og Noregur 8%. Á tímabili var það þannig að Norðmenn máttu ekki veiða nema til 15. febrúar en nú mega þeir veiða til 22. febrúar. Nú mega þeir vera samtímis með 30 skip að veiðum, en á tímabili máttu þeir vera með 25. Þá var norsku skipunum lengi vel óheimilt að veiða nema 35% af loðnunni í íslenskri lögsögu. Hin 65 prósentin þurftu þeir að veiða við Grænland eða Jan Mayen en mega nú veiða allan sinn afla við Ísland.

Vildu helminginn

Breytinguna sem gerð var á rammasamningnum árið 2018 má rekja til þess að árið 2015 óskuðu fulltrúar Grænlands eftir því að um loðnustofninn yrði unnin svokölluð lífsferilsskýrsla, eða zonal-attachment report. Haldið var til rannsókna og niðurstöður þeirra sýndu sýndu að umtalsverðar breytingar hefðu orðið á lífsferli loðnu miðað við eldri skýrslu frá árinu 1986.

„Í eldri skýrslunni var talið að loðna væri um 20% af lífsferli sínum í grænlenskri lögsögu en niðurstaða nýrrar skýrslu gaf til kynna að loðnan væri 75%–95% eftir árabilum af sínum lífsferli í grænlenskri lögsögu. Auk þess kom fram að loðnan væri ekki í lögsögu Jan Mayen,“ segir í greinargerð með rammasamkomulaginu frá 2018.

Miðað við þetta hlutfall þótti Grænlendingum rétt að þeir fengju meira en helming heildaraflans, en fulltrúar Íslands töldu þá kröfu ekki raunhæfa. Meðal annars var bent á að meðan loðnan hefst við í grænlenskri lögsögu sé svo mikil áta í henni að hún yrði harla verðlítil. Niðurstaðan varð sú að hlutur Grænlendinga hækkaði, sem fyrr segir, úr 11% í 15%.

Farin frá Jan Mayen

Nýju rannsóknirnar sýndu einnig að loðna væri ekki í lögsögu Jan Mayen og þess vegna töldu sumir að Noregur ætti ekki lengur rétt til hlutdeildar í loðnuveiðum ríkjanna. Íslensk stjórnvöld tóku þó þann pól í hæðina að „Noregur yrði áfram samningsaðili enda gæti hegðun og göngumynstur loðnu breyst í framtíðinni og hún gengið aftur í lögsögu Jan Mayen,“ að því er segir í greinargerðinni. Hlutur Norðmanna lækkaði samt, sem fyrr segir, úr 8% í 5%.