Færeyska sjávarútvegsfyrirtækið Christian í Grótinum mun framvegis einbeita sér að uppsjávarveiði og hefur selt frá sér síðasta hluta starfsemi sinnar í niðursuðu undir merkjum Larsen Danish Seafood. Kaupandinn er lettneska fyrirtækið Karavela.
IntraFish greinir frá þessu en Christian í Grótinum á að baki fjóra áratugi í fiskveiðum, en hóf starfsemi við fullvinnslu afurða í niðursuðu fyrir fjórum árum. Sú ákvörðun byggði á þeirri sýn að auka verðmætasköpun úr því hráefni sem fyrirtækið hafði yfir að ráða. Þá keypti fyrirtækið Larsen Danish Seafood sem var í gjaldþrotameðferð. Christian í Grótinum réðist í töluverðar fjárfestingar í framhaldinu; keypti tvær vinnslulínur fyrir niðursuðu á makríl. Hin línan var fyrir lax, síld, silung og fleira. Þær afurðir voru seldar á Þýskalandsmarkað.
Hluta fyrirtækisins hafði Christian í Grótinum selt danska framleiðandanum Sæby árið 2017 sem flutti starfsemina til Danmerkur, en Karavela mun flytja það sem nú hefur verið selt til Litháen.
Jan Peterson, forstjóri Christian í Grótinum, segir samkeppnina á markaðnum afar harða, og lítið á henni að græða nema viðkomandi framleiðandi hafi úr þeim mun meira af hráefni að spila. Á því brotnaði reksturinn nú – erfitt reyndist að fá hráefni til að standa undir framleiðslunni.
Metnaðarfullar hugmyndir
Í upphafi voru hugmyndir um framleiðslu metnaðarfullar, eins og Fiskifréttir greindu frá á sínum tíma. Forsvarsmenn félagsins sögðu að þeir hafi fyrst haft í huga að byggja verksmiðju í Klaksvík til að vinna hráefni frá skipum félagsins, Christian í Grótinum og Norðborg. Hins vegar var 25% tollur á niðursoðnum makríl sem fluttur var inn til ESB-land. Því hafi þessi leiði verið valin en þó var stefnt að því að reisa verksmiðju í Færeyjum.
Keyptar voru tvær verksmiðjur í Þýskalandi úr þrotabúi Larsen Seafood. Makrílverksmiðjan er í Flensborg en einnig var keypt verksmiðja í Bremerhaven sem vann ufsa. Í Flensborg unnu 160 manns en 50 manns í Bremerhaven.
Verksmiðjan í Flensborg framleiddi um 40 milljónir dósa með makríl á ári eins og áður sagði en ætlunin var að auka framleiðsluna allt upp í 80 milljónir dósa. Í Bremerhaven var unnið úr um þrjú þúsund tonnum af alaskaufsa og ufsa á ári.