Radarinn, mælaborð sjávarútvegsins, hefur tekið saman útflutningsverðmæti sjávarafurða byggt á bráðabirgðatölum Hafstofunnar. Í samantektinni má sjá að útflutningsverðmætið nam 23,4 milljörðum króna í mars. Þetta er fremur rýr marsmánuður miðað við undanfarin ár og í raun hafa útflutningsverðmæti sjávarafurða ekki verið minni í mars í 6 ár.
Útflutningsverðmæti sjávarafurða voru á hinn bóginn óvenju mikil í sama mánuði í fyrra og mælist því verulegur samdráttur á milli ára í mars, eða sem nemur 33%. Þar sem gengi krónunnar var rétt tæplega 1% hærra nú í mars en í sama mánuði í fyrra, er samdrátturinn mældur í erlendri mynt á svipuðu róli, eða rúm 32%.
Augljós áhrif loðnubrests
Á myndinni hér á undan má sjá að útflutningsverðmæti allra afurðaflokka dróst saman á milli ára í mars, að rækju undanskilinni. Í ofangreindum samdrætti munar mest um heilfrystan fisk og fiskimjöl. Útflutningsverðmæti heilfrysts fisks nam rétt um 1,3 milljarði króna nú í mars samanborið við 5,1 milljarð í sama mánuði í fyrra. Það jafngildir 75% samdrætti á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti fiskimjöls nam rétt um 400 milljónum króna í mars samanborið við tæpa 4 milljarða í mars í fyrra. Þar er því um 90% samdrátt að ræða. Í báðum tilvikum er ljóst að loðnubrestur í ár hafði stóru hlutverki að gegna, enda vó heilfryst loðna hátt í 60% af útflutningsverðmæti á heilfrystum fiski og loðnumjöl um helming af fiskimjöli í mars í fyrra. Ekki liggja fyrir upplýsingar um útflutningsverðmæti niður á einstaka fisktegundir nú í mars en þær verða birtar í lok þessa mánaðar.
Af öðrum afurðaflokkum má nefna að um 19% samdráttur var á útflutningsverðmæti frystra flaka og um 17% samdráttur á bæði ferskum afurðum og svo söltuðum og þurrkuðum. Útflutningsverðmæti lýsis dróst svo saman um 11% og „aðrar sjávarafurðir“ um 20%, en þar undir teljast meðal annars loðnuhrogn. Reikna má með að einhver útflutningur hafi verið á loðnuhrognum nú í mars líkt og undanfarna mánuði frá síðustu loðnuvertíð. Enda var metframleiðsla á hrognum í loðnuvertíðinni í fyrra, sem að stórum hluta eru enn eftir í birgðum hér á landi. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutningsverðmæti loðnuafurða í mánuði hverjum frá janúar 2022 til febrúar í ár.
Samdráttur á fyrsta fjórðungi
Páskar voru snemma á ferðinni í ár en voru í byrjun apríl í fyrra, sem gæti einnig verið hluti af ástæðu þess að samdrátturinn á milli ára í mars var svo mikill. Jafnframt voru bæði janúar og febrúar mjög stórir mánuðir og því ekkert óeðlilegt að það sé einhver tilfærsla í útflutningi á milli mánaða. Eins og fjallað var um á Radarnum nýverið þá var útflutningsverðmæti sjávarafurða um 14% meira á fyrstu tveimur mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra, á föstu gengi. Þannig að ef horft er á fyrsta ársfjórðung er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í 82,2 milljarða króna. Það er rúmlega 4% samdráttur frá sama tímabili í fyrra, á föstu gengi.
Þennan samdrátt á fyrsta ársfjórðungi má að langstærstum hluta skrifa á sömu afurðaflokka og í mars, það er fiskimjöl (-47%) og heilfrystan fisk (-33%). Útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða (-4%) hefur einnig dregist saman en útflutningsverðmæti allra annarra afurðaflokka hefur aukist á milli ára. Mest hefur aukningin orðið á útflutningsverðmæti lýsis (33%) og svo rækju (22%), en einnig hefur dágóð aukning orðið á útflutningsverðmæti ferskra afurða (8%). Minni breyting er á öðrum afurðaflokkum.
Loðna, ferðamenn og ál
Ljóst er að loðnubrestur mun setja sitt mark á útflutningstekjur þjóðarbúsins af sjávarafurðum í ár. Vissulega eru áhrifin ekki nærri eins sýnileg á útflutningstekjur þjóðarbúsins í heild og á árum áður vegna aukinna umsvifa annarra útflutningsgreina. Engu að síður breytir það því ekki að áhrif loðnubrests eru enn mikil og víðtæk, þá sérstaklega á tekjur þeirra samfélaga þar sem útgerð loðnuskipa og vinnsla á landi er hvað mest, eins og á Austurlandi og í Vestmannaeyjum.
Að lokum má nefna að í umræðunni um gjaldeyristekjur af einstaka útflutningsgreinum vill oft gleymast að það er ekki nóg að horfa einungis á brúttó útflutningstekjur, ef meta á framlag þeirra til gjaldeyrisöflunar eða verðmætasköpunar í hagkerfinu. Þar getur verið mikill munur á sem meðal annars má rekja til þess að útflutningsgreinar eru misháðar innfluttum aðföngum í sínum rekstri. Það hefur augljóslega áhrif á hversu miklar útflutningstekjur þær skapa í raun, nettó. Til að mynda skilar 50 milljarða króna loðnuvertíð mun meira til þjóðarbúsins en neysla erlendra ferðamanna eða álútflutningur að sömu fjárhæð. En hvað sem því líður er ljóst að þessar ólíku útflutningsgreinar, þ.e. sjávarútvegur, ferðaþjónusta og stóriðja, skipta allar máli fyrir gjaldeyrisöflun og verðmætasköpun í hagkerfinu.