Ekki er mikil hætta á frekari síldardauða í Kolgrafarfirði að mati Hafrannsóknarstofnunar. Í frétt frá stofnuninni segir að síldardauðinn í desember síðastliðnum hafi verið einstakt atvik og ekki verði séð að síld hafi mikið drepist síðan. Í janúar mældust um 200 þúsund tonn af síld í Kolgrafarfirði en síldin flakkar mikið fram og til baka í firðinum.

Sem framhald rannsókna Hafrannsóknastofnunar á orsökum, umfangi og áhrifum hins mikla síldardauða innan brúar í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi í miðjum desember sl. var farið aftur til vettvangsrannsókna dagana 10., 11. og 17. janúar. Gerðar voru bergmálsmælingar á magni lifandi síldar innan brúar jafnframt því sem gerðar voru mælingar á seltu, hitastigi, súrefni og styrk næringarefna. Þá var hafsbotninn myndaður innan og utan brúar.

Bergmálsmælingar á lifandi síld sýndu umtalsvert magn af síld innan brúar þann 10. janúar eða um 200 þúsund tonn. Daginn eftir hafði hún hins vegar gengið út aftur að mestu leyti og mældust þá einungis um 40 þúsund tonn þar. Það er því ljóst að síldin flakkar fram og til baka undir brúna.

Neðansjávarmyndavél var notuð til að mynda botninn bæði utan og innan brúar þann 17. janúar. Utan brúar var nánast ekkert af dauðri síld að sjá við botninn, einungis fáeinar á nokkur hundruð metra kafla. Innan brúar var myndað á svipaðan hátt og gert var í desember með langsniði eftir miðjum firðinum og eins var myndað þvert yfir hálfan fjörðinn til móts við bæinn Eiði.


"Meginniðurstöður þessara rannsókna Hafrannsóknastofnunar á síldardauðanum í innanverðum Kolgrafarfirði um miðjum desember benda til að um stakt tilvik hafi verið að ræða og að enginn viðlíka dauði síldar hafi fylgt í kjölfarið sl. mánuð. Súrefnisstyrkur er ennþá lágur þótt ekkert sýni hafi mælst eins lágt og lægsta mæligildi þann 18. desember. Þessi lági súrefnisstyrkur stafar því bæði af súrefniskrefjandi niðurbroti á dauðu síldinni sem og öndun þeirrar síldar sem er til staðar á svæðinu. Þar sem að síldin er auðsjáanlega á miklu flakki undir brúna með sjávarföllunum er ekki ástæða til að ætla að svipaður dauði muni eiga sér stað aftur þrátt fyrir viðvarandi lágan styrk súrefnis þar," segir á vef Hafrannsóknastofnunarinnar.

Sjá nánar http://www.hafro.is/undir.php?ID=19&REF=3&fID=15807&nanar=1