„Það nuddast áfram hjá okkur strákunum,“ segir Árni Gunnólfsson, skipstjóri á Þerney RE, skipi Brims, sem er nú við veiðar úti af Vestfjörðum.
Þegar rætt er við Árna fyrir hádegi í gær er nýbúið að hífa um borð átta tonn af blönduðum afla, ufsa og karfa.
Túrinn hjá Þerney að þessu sinni er tiltölulega stuttur að sögn Árna og stendur frá 5. maí til 29. maí. „Það er ekki mikið af fiski af ferðinni og þetta er búið að vera upp og ofan. Það virðist vera nóg af þorski, að minnsta kosti núna í maí, en við erum að reyna að eltast við ufsa,“ segir hann. Ufsaveiðin hafi verið lítil.
Við erum ekkert hættir
Árni segir að í vetur hafi verið góð veiði hjá Þerney. „Við vorum að leggja áherslu á gulllax og erum búnir að veiða vel af honum. Við erum búnir að vera mikið hérna á Vesturhorninu, í Víkurál, Nætursölunni og Kattarhrygg,“ segir hann. Vel hafi fiskast annað slagið í Nætursölunni.
„Við höfum fengið ufsa og karfa blandaðan saman. Ufsi virðist ekki skilja sig frá öðrum fiski þannig að við erum að fá mikinn meðafla, að minnsta kosti í þessari veiðiferð. En við erum svo sem búnir að veiða vel og fá örugglega 430 til 440 tonn í ferðinni. Og við erum ekkert hættir. Þetta sleppur alveg fyrir horn,“ segir Árni.
Veturinn hefur sem sagt gengið vel á Þerney. „Við erum svo sem að gera annað en aðrir frystitogarar og höfum lagt áherslu á tegundir sem menn hafa kannski ekki verið að veiða, eins og gulllax,“ segir skipstjórinn.
Mikla meira af djúpkarfa en síðustu ár
Að sögn Árna hefur verið miklu meira af djúpkarfa en undanfarin ár. „Djúpkarfinn var náttúrlega skorinn niður í núll. Ég hef aldrei skilið það. Það er ekki hægt að ofveiða djúpkarfa í botntroll en það er hægt að ofveiða djúpkarfa í flottroll,“ segir hann. Menn séu þarna á villigötum. „Djúpkarfinn lyftir sér frá botni eins og á nóttunni. Hann var ofveiddur í flottroll á sínum tíma.“
Þorski sleppt til Grænlands
Þá segir Árni að nú hafi verið mikil þorskveiði. „Þorskurinn hefur verið að flæða yfir og þorskkvótinn á Íslandsmiðum er að verða búinn. Við erum að sleppa honum og hann er að fara yfir til Grænlands núna,“ segir hann.
Frá því hann byrjaði á sjó fyrir meira en fjörutíu árum segir Árni að ekki hafi verið stundaðar hafrannsóknir á Íslandi. „Ég hef aldrei nokkurn tímann séð hafrannsóknaskip veiða við hliðina á mér,“ segir hann og kveðst ekki hafa hugmynd um hvað vísindamennirnir séu að gera. „Ætli þeir séu ekki að mæla seltuna í sjónum eða eitthvað slíkt.“