Svandís Svavarsdóttir ráðherra sjávarútvegsmála sagði á Sjávarútvegsráðstefnunni 2023 í Hörpu í dag að flest þau markmið sem stefnt hefði verið að fyrir íslenskan sjávarútveg hefðu ræst og hann stæði styrkum fótum sem undirstöðuatvinnugrein í landinu. Enn væri þó gjá á milli greinarinnar og hins almenna borgara ef marka mætti mælingar á þjóðarpúlsinum.
Hún sagði að stefnumótun í sjávarútvegi væri stærra og mikilvægara mál en það hverjir sitja í ríkisstjórn á hverjum tíma og ætti að vera hafin yfir pólitískt dægurþras.
Sjávarútvegur hafi verið undirstöðuatvinnugrein á Íslandi alla 20. öldina og einungis nýlega sem ferðaþjónustan fór fram úr sjávarútvegi hvað varði gjaldeyristekjur. Það sé þó tiltölulega ný tilkomið að útgerð sé jafn arðsöm og hún hafi verið undanfarin tíu ár. Sjávarútvegur víða um heim sé í allt annarri og verri stöðu. Víða glími hann við sömu vandamál og Íslendingar hafi glímt við áður fyrr; offjárfestingu í veiðum og vinnslu, ofnýtingu fiskistofna og óhagkvæmar einingar. Sú leið sem hafi verið farin hérlendis sé mörkuð af mörgum ákvörðunum sem saman hafa leitt til mikillar velgengni í sjávarútvegi.
Þrátt fyrir góða afkomu sjávarútvegsins snúist umræðan um hann ekki um þá þætti sem hafa leitt til þessarar góðu afkomu.
Umræða sem snýst um umræðuna
„Umræðan snýst um þætti sem eru að sumu leyti óáþreifanlegir. Umræðan snýst nefnilega um umræðuna sjálfa. Þessi staða er flókin á tímum þegar skautun í allri umræðu fer vaxandi. Á tímum sem lítið rými er fyrir grátóna en mikil stemning fyrir svarthvítri umræðu. Þegar fjölmiðla- og samfélagsmiðlaumhverfið verðlaunar þá sem hafa hátt og eru með afdráttarlausar skoðanir, tala í fyrirsögnum án þess að flækja sig í hlutum eins og staðreyndum, þekkingu eða næmi. Sé almenningur spurður samhliða hér á Íslandi svarar hann því til að það sé ósætti um sjávarútveg. Gagnsæi skorti, verðmæti verði til fyrir of fáa. Þetta endurspeglar það að við erum ekki komin á endastöð í stefnumótun í sjávarútvegi þó við höfum náð að búa til kerfi sem nær sannarlega miklum árangri í alþjóðlegum samanburði.“
Svandís sagði að í sínum huga væri kjörstaðan sú landsmenn væri ekki einungis ánægðir með sinn sjávarútveg heldur líka stoltir af honum. Hann sé stór hluti af því sem Ísland er og vill vera. Auðlindir verði nýttar á sjálfbæran hátt til uppbyggingar og velsældar.
„Grein er vettvangur nýsköpunar, í forystu í hringrásarhagkerfinu, umhverfismálum og loftslagsvænni atvinnuuppbyggingu. Greinin nýtur trausts og einkennist af réttlæti og gagnsæi og leggur auk þess ríkulega til samfélagsins. Þetta er staðurinn sem ég held að við getum komist á. Hvernig við komumst þangað er sameiginlegt verkefni greinarinnar, samfélagsins og stjórnvalda.“