Friðrik Halldórsson, talsmaður Samtaka dragnótamanna, segir þá endalaust þurfa að verjast órökstuddum árásum á veiðiaðferðina. Nýjasta dæmið sé gagnrýni Magnúsar Jónssonar, formanns Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar, á dragnótaveiðar í innanverðum firðinum þar.

Friðrik segir málið snúast um hvar hægt sé að stunda dragnótaveiðar. Það sé í flóum og fjörðum þar sem séu fljót á borð við Héraðsvötn í Skagafirði.

„Á Norðurlandi eru stærstu veiðislóðirnar fyrir framan Héraðsvötn og fyrir framan Blöndu. Sá botn sem hentar dragnótaveiðum myndast með leirframburði frá jöklum. Til dæmis er í Húnaflóanum langstærsti hluti flóans óveiðanlegur með dragnót,“ segir Friðrik. Hægt sé að nota dragnót fyrir framan Blöndu, fyrir framan Miðfjarðará, í Hrútafirði og í Steingrímsfirði þar sem séu ár sem hafi borið fram jarðveg sem henti til dragnótaveiða.

Umræðan hafi þegar farið fram

Kristbjörg ÁR á snurvoð á Arfadalsvík rétt vestan Grindavíkur. Mynd/Jón Steinar Sæmundssonindavíkur. Jón Steinar Sæmundsson
Kristbjörg ÁR á snurvoð á Arfadalsvík rétt vestan Grindavíkur. Mynd/Jón Steinar Sæmundssonindavíkur. Jón Steinar Sæmundsson

„Strandveiðar voru ekki settar á til þess að atvinnumenn í greininni þurfi að víkja frá veiðislóð. Alltaf þegar strandveiðimenn hafa komið með fullyrðingar um að það hafi ekki þýtt fyrir þá að fara á sjó þegar dragnótin var búin að vera er það tóm vitleysa. Alltaf þegar það er skoðað er enginn sjáanlegur munur á afla bátanna þó að það hafi verið veitt í dragnót. Enda nýta þeir ekki sömu fiskislóð,“ segir Friðrik. Smábátarnir séu ekki á leirbotninum.

„Þeir fá ekkert á krókana þar. Strandveiðibátarnir eru aðeins að veiða þorsk en uppistaðan í afla dragnótabáta er ýsa. Það er bara önnur slóð. Þetta er ekkert að skarast. Þetta er bara frekja,“ segir Friðrik um málflutning strandveiðimanna.

„Svo eru þeir að biðja um að það fari fram samráð og sett af stað umræða. Hún hefur nú heldur betur farið fram,“ heldur Friðrik áfram og vísar í niðurstöður starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um faglega heildarendurskoðun á regluverki varðandi notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum frá árinu 2018. Sá vinnuhópur hafi starfað í nærri tvö ár og skilað tæplega 200 síðna lokaskýrslu. Hall

Öfundi dragnótamenn

„Hagsmunaaðilar fengu tækifæri til að koma sínum athugasemdum að og þetta var mikið ferli. Það voru tekin fyrir öll veiðarfærin og dragnótin kom einna best út úr því. Þarna voru fulltrúar Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, ráðuneytisins og fleiri. Ég var margoft kallaður inn til fundar við þá og smábátamenn fengu að tala sínu máli. Þannig að öll þessi vinna sem þeir eru að biðja um að fari fram hefur þegar verið unnin. Það er bara eins og menn gleymi því,“ segir Friðrik. Strandveiðimenn séu í raun ekki að biðja um að málið sé kannað heldur um aðra niðurstöðu en könnunin leiddi í ljós. „Niðurstöðu sem hentar þeirra hagsmunum.“

Spurður hvers vegna strandveiðimenn vilji dragnótina burt af grunnslóð fyrir framan Héraðsvötn eins og í Skagafirði úr því að þeir geti hvort eð er ekki stundað þar veiði eins og Friðrik heldur fram svarar hann að ástæðan sé einfaldlega öfund.

„Þeir horfa á dragnótabátana mokveiða fisk sem þeir geta ekki náð. Það er svo mikið æti á þessum svæðum þar sem framburðurinn er að hann lítur ekki við krókum. Þeir geta ekkert veitt hann þótt þeir vildu. Þess vegna fara þeir ekkert á leirbotninn þar sem dragnótin er. Þeir eru meira á hörðum botni. Þeir róa mest í utanverðan Skagafjörð,“ segir Friðrik.

Djöflast í á aðra öld

Í máli Magnúsar Jónssonar í viðtali í Fiskifréttum í lok júlí kom meðal annars fram að hann teldi dragnótabátana hljóta að vera að fá lax og silung sem meðafla því þeir væru nánast að kasta nótinni í ósa Héraðsvatna. Friðrik segist aldrei hafa heyrt af slíku þótt það kunni að vera.

„Allt sem kemur frá smábátamönnum er bara út í loftið. Þeir hafa aldrei komið með neitt sem er stutt gögnum eða rökum. Ekki í þau 110 eða 120 ár sem þeir hafa verið að djöflast í dragnótinni. Þetta er búið að vera stanslaust í á annað hundrað ár,“ segir Friðrik, sem kveður misskilnings virðast gæta um tilgang strandveiðikerfisins.

„Halda menn að hugsunin á bak við strandveiðarnar hafi verið að fyrrverandi opinberir starfsmenn á fullum eftirlaunum frá ríkinu séu að taka kvóta frá útgerðum  með aflaheimildir?“ spyr Friðrik og vísar þar til þess að Magnús Jónsson er fyrrverandi Veðurstofustjóri.

„Og hann er ekkert sá eini sem fær full laun annars staðar frá. Ég efa að það sé greidd króna í laun af aflanum sem hann er að veiða og þannig er það víða í strandveiðinni. Þetta er ekki að skila þjóðinni neinu. Á dragnótinni hins vegar fer önnur hver króna í laun og launatengd gjöld,“ segir Friðrik.

Umhverfisvænar veiðar

Þótt strandveiðikerfið sé þannig að mati Friðriks ekki að virka eins og það var hugsað segir hann strandveiðarnar vissulega hleypa einhverju lífi í sumar byggðir þar sem enginn kvóti sé eftir.

„En afli á strandveiði er ekkert að gefa meira en á dragnót. Að geta róið eins og bátarnir á Sauðárkróki bara rétt út fyrir höfnina og veitt fisk þar er eins umhverfisvænt og það getur verið, það er hverfandi olíukostnaður per veitt tonn,“ segir Friðrik og undirstrikar að dragnótin sé vísindalega viðurkennd sem mjög umhverfisvæn.

„Það birtist grein fyrir nokkrum árum þar sem hann Haraldur Einarsson fiskifræðingur fer yfir úttekt Alþjóða hafrannsóknaráðsins, ICES, á hinum ýmsu veiðarfærum og umhverfisáhrifum þeirra. Þar eru gildrur og flottroll efst. Svo koma handfæri og dragnót. Síðan koma net og lína þar fyrir neðan,“ segir Friðrik. Þrátt fyrir þetta hafi stöðugt verið þrengt að dragnótinni í gegnum árin.

„Við þurfum endalaust að verja okkur. Það er ógeðslegt að þurfa alltaf að standa í þessu. Svo taldi maður það vera endinn þegar þessi mikla vinna var lögð í heildarúttekt á veiðum á grunnslóð sem skilaði þessari vönduðu skýrslu sem dragnótin kemur mjög vel út úr. Það voru lokanir innst í Skagafirðinum út af Héraðsvötnunum en nefndin komst að því að það væri óþarfi. Það var fullt af alls konar takmörkunum í Breiðafirði sem féllu allar niður eftir birtingu skýrslunnar. En það eru hins vegar takmarkanir á krókaveiðum vegna smáfiskadráps,“ segir Friðrik.

Ekkert utan við tólf mílur

Stóra punkturinn í málinu ítrekar Friðrik að sé að hans mati sá að strandveiðin hafi alls ekki verið hugsuð til þess að taka yfir veiðar við Ísland og senda atvinnufólk heim og loka miðum.

„Það er alltaf talað um út fyrir tólf mílur en það er ekkert fyrir utan tólf mílur fyrir dragnót. Þeir tala um að  dragnótin eigi ekkert heima inni á flóum og fjörðum en hún er hönnuð til að vera inni á flóum og fjörðum,“ segir Friðrik. Það sé ekkert sem segi að verra sé fyrir lífríkið að á veiða á grunnvatni.

„Það er eiginlega öfugt, því þegar gerir þessi veður sem gerir við Ísland eru áhrif hafrótsins miklu meiri á grunnslóð en á djúpslóð. Það kemur fyrir eftir suðvestan stórviðri í Faxaflóa að það er ekki hægt að kasta fyrst á eftir, botninn er allur í hólum  og hæðum. Það þarf ekkert ítarlegri rannsókn eins og Magnús er að biðja um, vísindin vita að það er svo mikið áreiti frá náttúrunni á botninn að dragnótin getur aldrei toppað það,“ segir Friðrik

Dragnótabátum farið ört fækkandi

Friðrik segir dragnótabáta alls hafa verið í kringum 150 árið 1997 en nú séu aðeins 32 eða 33 bátar eftir.

„Það er mest á Breiðafirði og á Vestfjörðum. Það er einn í Þorlákshöfn, einn á Stokkseyri og einn í Eyjum sem ég held að sé að hætta,“ segir Friðrik Halldórsson, sem sjálfur var á dragnót sem ungur maður, lengst af á Aðalbjörginni í Reykjavík.

„Svo var ég með Bjarma frá Tálknafirði en aðallega úti fyrir Suðvesturlandinu. Skipstjórinn nennti ekki að róa frá Sandgerði svo að ég leysti hann af á veturna.“