Grunnsævisfuglinn teista hefur með reglugerð verið friðuð fyrir skotveiðum. Teista, eins og fleiri svartfuglastofnar, hafa átt erfitt uppdráttar á undanförnum árum og stofnar fara verulega minnkandi.
Ráðherra barst áskorun frá Fuglaverndarfélagi Íslands, Skotvís og Vistfræðifélags Íslands í maí um að friða teistu fyrir skotveiðum vegna lítillar stofnstærðar hennar hérlendis, sem fer minnkandi. Ákvörðun um friðun var í framhaldinu tekin á grundvelli umsagna frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun.
Aukaafli veiðimanna
Bent er á að tegundin hafi í raun verið aukaafli svartfuglaveiðimanna og því hafi ekki verið sérstaklega sóst eftir henni. Erfitt er að meta stærð stofnsins en gróflega hefur verið áætlað að íslenski stofninn sé um 10.000-20.000 pör. Vöktun bendir sterklega til talsverðrar fækkunar teistu í allmörg síðustu ár.
Í umsögn Náttúrufræðistofnunar segir að teistustofninn sé mun minni en hinna svartfuglastofnanna við Ísland. Víða um landið hefur teistu fækkað svo mikið að talið er að þessi tala sé mun lægri, en það grófa mat sem gengið er út frá. Teista heldur sig á grunnslóð í nágrenni við landið árið um kring og er því hægt að veiða hana allan veiðitímann, frá byrjun september og fram á varptíma að vori. Veiðar á öðrum svartfuglum eru oftast tímabundnari þar sem þeir hverfa frá landinu yfir veturinn, að hluta eða jafnvel öllu leyti, samanber lundi og stuttnefja. Veiðiálag er verulegt, jafnvel allt að 10 til 20% af áætlaðir stofnstærð með fyrirvara um að stofnstærð er ekki þekkt með viðunandi vissu. „Sennilega er teista yfir höfuð ekki heppileg veiðitegund vegna líffræði sinnar, lifnaðarhátta og lítillar stofnstærðar,“ segir í umsögninni.
Grásleppunetin
Í umsögn sinni bendir hins vegar Umhverfisstofnun á að mjög litlar rannsóknir liggi fyrir um stofnstærð teistu og sú stofnstærð sem miðað er við sé í raun 17 ára gömul ágiskun. Bent er á að í skýrslu Náttúrufræðistofnunar frá 2012 segir að alls sé óvíst hvort rannsóknir endurspegli raunverulega stofnþróun.
„Einnig er vert að skoða þær tölur sem koma fram í talningu á Suðvesturlandi en samkvæmt þeir er staðan þar nú svipuð og hún var á árunum 1960-1965, en í millitíðinni fjölgaði henni gríðarlega allt fram til 1990. Í því ljósi er því mikilvægt að ákvarða hver sé eðlileg stofnstærð teistu við Ísland, hvenær telst stofn vera í jafnvægi og hver er ásættanleg verndarstaða stofnsins,“ segir þar.
Þar er einnig vikið að því að skotveiðar eru lítill hluti þeirra affalla sem stofninn verður fyrir eða um 2,5 til fjögur prósent af ágiskuðum stofni. Hins vegar, samkvæmt erindi Fuglaverndar, eru meðaflaveiðar um 8,7- 13% í grásleppunet „sem stofnunin telur vert að taka til alvarlegrar athugunar.“
Tengt afráni minks
Í gögnum Náttúrufræðistofnunar – ritinu Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi frá desember 2016 – segir að teistan verpur við norðanvert Atlantshaf og hér verpur hún víða með ströndum landsins og virðist vera staðfugl að mestu. Nokkur stór vörp eru þekkt en víða verpa stök eða fá pör saman.
Giskað var á 30−50 þúsund pör kringum 1990 en síðar 10–20 þúsund pör, eins og áður sagði. Fylgst hefur verið með teistuvarpi á afmörkuðum svæðum og eins eru brotakenndar upplýsingar um teistur héðan og þaðan. Teistum hefur fækkað víða og er stundum hægt að tengja það við afrán minks. Teistum er einnig mjög hætt við að lenda í grásleppunetum.
Mest rannsakaða teistuvarp landsins, í Flatey á Breiðafirði, er nú aðeins svipur hjá sjón; þar verpa aðeins um 80 pör (2016) en voru flest 530 árið 1987.
Vetrarfuglavísitölur Náttúrufræðistofnunar á landsvísu sýna nokkrar sveiflur en samfellda fækkun eftir 1985. Vegna skorts á upplýsingum er aðeins með grófum hætti hægt að meta þýðingu nokkurra svæða fyrir teistu, en öruggt má telja að Breiðafjörður sé mikilvægasta varpsvæði teistu hér við land.