Nokkuð annan tón kvað við um stjórn fiskveiða en er að finna í frumvarpi sjávarútvegsráðherra í ræðu sem Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, flutti á Alþingi í gærkvöldi um stefnuræðu forsætisráðherra. Magnús Orri sagði að ekki hægt að horfa framhjá því að kvótahafar hefðu að miklu leyti keypt kvóta á markaði. Pólitísk handstýring og takmarkanir vinni gegn markmiðum um hámörkun arðsemi. Hins vegar taldi hann að hagnaður af nýtingu auðlindarinnar, umfram eðlilega ávöxtun, ætti að renna að langmestu leyti til þjóðarinnar.

Kafli um sjávarútvegsmál í ræðu Magnúsar Orra fer hér á eftir: ,,Framundan er einnig endurskoðun fiskveiðikerfisins. Við þá vinnu er ekki hægt að horfa framhjá því að núverandi kvótahafar hafa að miklu leyti keypt kvóta á markaði og þar með lagt út fyrir væntum ávinningi af nýtingu auðlindar. Á hinn bóginn verða útvegsmenn að skilja kröfu almennings um að fá til sín verulega stóran hlut af þeim umfram hagnaði sem auðlindin skilar.

Leiðin að sátt er í gegnum tekjurnar af auðlindinni. Fyrirtæki í sjávarútvegi skila hagnaði og af honum greiða þau eðlilegan tekjuskatt – en sá hagnaður sem verður til og er umfram eðlilega ávöxtun fjármagns,  það er;  hagnaður af nýtingu auðlindar. Þann hagnað verður þjóðin að fá að langmestu leyti.

Um leið er mikilvægt að breytingarnar dragi ekki úr þeirri verðmætasköpun sem á sér stað í sjávarútvegi. Pólitísk handstýring og takmarkanir vinna gegn markmiðum um hámörkun arðsemi. Betra er að hámarka hagnaðinn sem greinin gefur af sér, og svo að gefa almenningi verulega hlutdeild í þeirri arðsemi. Fá þannig inn fjármagn til að standa undir nýsköpun, og samkeppnishæfu atvinnulífi í hinum dreifðu byggðum landsins,“ sagði Magnús Orri Schram.