Norski loðnubáturinn Talbor varð fyrir því óláni að farmur bátsins eyðilagðist í stormi sem báturinn hreppti á leiðinni frá Íslandi til Noregs, að því er fram kemur í frétt á vef Fiskeribladet .

Þar segir að útgerð bátsins hafi fengið kostaboð frá vinnslustöð í Tromsø og því var ákveðið að fara með farminn til Noregs í stað þess að landa á Íslandi. Norska vinnslan ætlaði að greiða tæpar 7 norskar krónur á kíló, um 90 krónur íslenskar, fyrir loðnu til manneldisvinnslu. Skipstjóri bátsins segist hafa verið viss um að hann gæti komist yfir hafið áður en óveðrið myndi skella á. Það gekk ekki eftir og því fór sem fór. Loðnan endar í bræðslu og fiskimjölsverksmiðjan greiðir 1,75 krónur á kílóið, eða tæpar 23 krónur íslenskar. Áætlað tekjutap er tugir milljóna íslenskra króna.