Ekki verður gefinn út aukinn loðnukvóti miðað við þær loðnumælingar sem gerðar hafa verið. Þetta segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofna hjá Hafrannsóknastofnuninni í samtali við RÚV.
Eftir haustmælingar var gefin út 300 þúsund tonna heildarkvóti. Ráðlagður kvóti er oft aukinn eftir vetrarmælingar en ekki virðist tilefni til þess nú, segir Þorsteinn. Frekari mælingar verða gerðar og staðan metin eftir það.
Töluvert er af loðnu norður af Horni og með Vestfjörðum. Sveinn Sveinbjörnsson leiðangursstjóri á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni segir í samtali við Morgunblaðið í dag að þar hafi hrygningarloðnan að vísu verið blönduð yngri loðnu en hann telji vestangöngu þó ekki ólíklega að þessu sinni. Í vestangöngum gengur loðnan suður með Vestfjörðum og hrygnir í Breiðafirði og Faxaflóa. Slíkar göngur hafa ekki verið staðfestar í rúman áratug.
Því má bæta við að heildarloðnukvótinn á síðustu vertíð var 765 þúsund tonn.