Að mati Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra er það pólitísk ákvörðun, en ekki eingöngu hagfræðileg, hvernig fiskveiðistjórnuninni er háttað og hvernig tekið er tillit til margháttaðra aðstæðna. Má hér sérstaklega nefna atvinnuöryggi íbúa í sjávarbyggðunum og ýmis jafnræðis- og mannréttindasjónarmið.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef ráðuneytisins þar sem skýrsla sérfræðingahóps um hagræn áhrif fiskveiðistjórnarfrumvarpsins á sjávarútveginn er kynnt.

,,Það er mat Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skýrsla hópsins sé innlegg í umræðu þá sem nú fer fram vegna endurskoðunar laga um stjórn fiskveiða. Hópurinn telur sérstakan kostnað við ýmis atriði eins og byggðatengingar, strandveiðar og fleira. Ráðuneytið minnir hér að lokum á að sjálfbærar veiðar samanstanda af þremur meginstoðum þ.e.a.s. líffræðilegri, hagrænni og samfélagslegri sjálfbærni og þar þarf ákveðið jafnræði að ríkja,” segir í fréttatilkynningunni.