Fyrstu niðurstöður rannsókna á stofnerfðafræði makríls á Íslandsmiðum sýna að ekki sé hægt að útiloka að lítill hluti hans sé af öðrum uppruna en evrópskum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar, Matís og Háskóla Íslands ásamt norskum, færeyskum, grænlenskum og kanadískum vísindamönnum hófu rannsóknir á makríl í Norður-Atlantshafi fyrir tveimur árum í samvinnu við nokkur fyrirtæki.
Niðurstöður úr forrannsóknum eru meðal annars þær að stærsti hluti makríls sem veiðist í íslenskri fiskveiðilandhelgi sé af evrópskum uppruna en þó sé mögulega lítill hluti af kanadískum uppruna. Tekið er fram að tölfræðilegur grunnur þessara rannsókna sé veikur og frekari rannsóknir séu í gangi.
Næstu skref í rannsóknunum snúa að því að finna næmari erfðamörk sem greina betur á milli stofneininga.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.