„Eitt af þeim verkefnum sem ég hef ákveðið að leggja áherslu á er að bæta enn frekar gögn og upplýsingar um stöðu kvenna innan þessarar greinar,“ sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra á opnum fundi félagsins Konur í sjávarútvegi.

Á fundinum voru kynntar niðurstöður úr könnun á stöðu kvenna í sjávarútvegi sem félagið lét gera og sagt var stuttlega frá í Fiskifréttum í síðustu viku. Megin niðurstöðurnar voru þær að konum sé að fjölga í sjávarútvegi. Þróunin sé í rétta átt en hægt miði.

Í ávarpi sínu sagði Svandís þessa könnun tvímælalaust nýtast sér í ráðuneytinu og hún muni „leggja mikla áherslu á vinna að auknu jafnrétti innan þessarar greinar og tengdra greina í nýju ráðuneyti matvæla.“

Á opna fundinum urðu annars áhugaverðar umræður um sjávarútveginn almennt og um stöðu kvenna innan greinarinnar, og verður hér gripið niður í fáein atriði sem þar komu fram.

Ásta Dís Ólafsdóttir lektor sagðist hafa verið að skoða stöðu kvenna i atvinnulífinu almennt undanfarin ár og hafði þá meðal annars skoðað stóru fyrirtækin sem skráð eru í kauphöllinni. Af 20 fyrirtækjum sé aðeins eitt með konu í æðstu stöðu. Hvað sjávarútveginn varðar er það svo að meðal 50 stærstu fyrirtækjanna, miðað við kvótahlutdeild, sé staðan ekkert sérstaklega góð heldur meðal æðstu stjórnenda.

Sjálfvirknivæðing

„Stór hluti af þessum 50 stærstu eru fjölskyldufyrirtæki þannig að konurnar eru svolítið þar í eigendahópnum. En það er sama þróun í sjávarútvegsfyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum að konum er að fjölga í framkvæmdastjórnum,“ sagði Ásta Dís.

Það sem hún sagði þó hafa komið sér mest á óvart í niðurstöðum könnunarinnar var hvernig spurningunni um það hvaða áhrif sjálfvirknivæðingin hefur á störf kvenna í sjávarútvegi.

„Mér kom mest á óvart að yfir 80% svarenda í þessari könnun telja að þetta hafi engin áhrif á störf kvenna.“

„Sjálfur hefði ég sennilega svarað þessu öðru vísi. Auðvitað er sjálfvirknivæðingin að breyta störfum í sjávarútvegi,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, spurður út í þetta tiltekna atriði. Hann benti á að oft hafi verið erfitt fyrir konur að finna störf úti á landsbyggðinni. Þess vegna séu þessar breytingar mjög mikilvægar fyrir landsbyggðirnar.

Þrjár leiðir

Ásta Dís var spurð hvað væri hægt að gera til að breyta, og sagði að í meginatriðum kæmu þrjár leiðir til greina. Ein væri að setja einfaldlega kynjakvóta á framkvæmdastjórnir félaga, önnur væri sú að stærstu fjárfestar á markaði myndu setja kröfur um kynjahlutföll inn í eigendastefnu sína þegar verið er að fjárfesta í fyrirtækjum, rétt eins og gert hefur verið um sjálfbærni og annað.

„Þriðja leiðin, sem er svo mín uppáhaldsleið að fara, er sú að stjórnir félaga bara móti sér stefnu“ og „fari í naflaskoðun.“ Meðal annars kæmi til greina að fyrirtækin settu sér svokallaða arftakaáætlun þar sem fyrirtækin myndu þjálfa upp mögulega arftaka æðstu stjórnanda og skipuleggja það nokkur ár fram í tímann.

Stuðning hafi vantað

Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims sagði þetta geta verið skynsamlega nálgun: „Þú sérð kannski marga einstaklinga í fyrirtækinu og ef þú hefur trú á ákveðnum þá þarftu kannski að hjálpa þeim og þjálfa þá upp til þess að verða leiðtogar. Það þarf ekkert endilega að byrja á toppnum heldur byrja niðri og svo vinnur fólk sig upp og það hefur kannski vantað á konurnar að við höfum stutt betur við bakið á konunum.“

Óhjákvæmilega barst talið að Verbúðarþáttunum og var Guðmundur í Brim meðal annars spurður hvað honum hafi fundist.

„Mér fannst Verbúðin alveg frábær,“ sagði hann, „og mér fannst hún sýna okkur þessa tíma á einhvern listrænan máta en við erum ekkert að fara til baka í þennan tíma.“

Breyttar áherslur

Varðandi það hvernig honum þætt umræðan um sjávarútveginn hafa verið í kjölfar Verbúðarþáttanna, svaraði hann: „Mér finnst hún ekkert verri núna en áður. Ég kem hingað 1986 inn í þetta verbúðartímabil og mér finnst við vera búin að rífast um þennan veiðirétt núna í 35 ár. Ég held að næsta skref sé að núna munum við hætta að rífast um þennan veiðirétt og fara að tala um hvernig búum við til meiri verðmæti úr afurðinni.“

Hann var í framhaldinu spurður hver væri stærsta breytingin í íslenskum sjávarútvegi frá Verbúðartímanum.

„Ég held að stærsta breytingin frá því ég var að alast upp á Rifi svona 1970 - 80 að þá voru skipstjórarnir kóngarnir í plássinu og þeir fóru bara að veiða þegar þeir töldu best. Svo var bara að vinna fiskinn,“ sagði Guðmundur, og nefndi dæmi frá Vestmannaeyjum þar sem menn höfðu veitt svo mikið að fiskinum var „bara sturtað út á tún. Í dag er það ekki lengur svoleiðis. Nú er bara stýrt hvernig er veitt og hráefnið er ekki skemmt, þannig að við erum búin að færast fram á við alveg gríðarlega.“

Þátttakendur á opna fundinum

Svandís Svavarsdóttir ráðherra ávarpaði fundinn og Agnes Guðmundsdóttir, formaður Félags kvenna í sjávarútvegi, kynnti niðurstöður könnunarinnar. Síðan fluttu erindi þeir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marels og Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandsbanka.

Þátttakendur í pallborði voru svo þau Ásta Dís Ólafsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, Erla Ósk Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Marine Collagen, Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, og Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.