„Það er fátt góðra frétta þessa dagana. Við erum að landa tæpum 400 tonnum en veiðin hefur verið léleg upp á síðkastið,“ segir Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK, í spjalli um ganginn í makrílnum á vef Síldarvinnslunnar.

Í dag er verið að landa makríl úr Beiti í Neskaupstað en afar dauft hefur verið yfir veiðinni síðustu dagana að því er segir á svn.is.
„Við höfum verið að veiðum í íslensku lögsögunni ásamt samstarfsskipum og það hefur verið afar lítið að sjá. Við höfum síðan fengið fréttir úr Smugunni um svipað ástand þar. Menn eru því ekkert sérstaklega hressir en hafa verður í huga að algengt er að makrílveiði detti niður tímabundið á makrílvertíð en síðan rætist úr á ný. Við vonum að þetta verði þannig einnig núna,” er haft eftir Tómasi.
Síldarblandaður og töluverð áta
Einnig er rætt við Geir Sigurpál Hlöðversson, rekstrarstjóra fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar, sem segir vinnsluna á makrílnum gangi vel þegar hráefni berst.
„Vinnslan hefur verið nokkuð samfelld en nú er útlit fyrir að hún verði slitrótt ef veiði eykst ekki. Eins og er ganga veiðarnar ekki nógu vel. Aflinn sem skipin koma með er töluvert síldarblandaður og veruleg áta er í makrílnum. Við vonum að sjálfsögðu að rætist úr veiðinni á næstunni og hráefnið sem við fáum verði gott,” segir Geir Sigurpáll.