„Fyrst og fremst er þetta mikill léttir og gleði yfir því að þessu sé lokið,“ segir Óðinn Gestsson framkvæmdastjóri Íslandssögu ehf., á Suðureyri í samtali á vefnum bb.is en Fiskistofa gaf fyrr í mánuðinum út tilkynningu þess efnis að stofnunin hefði lokið könnun á samræmi milli hráefnisaðfanga og seldra afurða hjá Íslandssögu, en rannsóknin hófst 2. júní árið 2010.
Í fréttum frá þessum tíma kemur fram að grunur hafi leikið á að um framhjálöndun hafi verið að ræða. Þær upplýsingar sem Fiskistofa hefur nú aflað sér um málið sýna hinsvegar ekki fram á óeðlilegt misræmi milli bakreiknaðs afla frá framleiddum afurðum og löglega innvegins afla hjá fyrirtækinu á tímabilinu 1. janúar 2009 til og með 2. júní 2010.
„Þetta hefur haft veruleg áhrif á starfsemina hjá okkur. Flest fyrirtæki á Íslandi fóru í gegnum hrunið með tilheyrandi skuldaaukningu og við erum þar engin undantekning. Okkur hefur hinsvegar ekki tekist að klára okkar skuldauppgjör og endurskipuleggja fyrirtækið þar sem opinberar stofnanir og fjármálastofnanir höfðu þann fyrirvara á að við værum í opinberri rannsókn,“ segir Óðinn í samtali við bb.is