Þetta kom fram í samantekt Deloitte á lykiltölum sjávarútvegsins árið 2017, sem kynntar voru á Sjávarútvegsdeginum í Hörpu á miðvikudag.
Þar kemur fram að tekjur í sjávarútvegi hafi haldið áfram að lækka á árinu 2017, annað árið í röð. Jafnframt hafi hagnaður í greininni hafi ekki verið lægri frá hruni.
„Tekjurnar eru að dragast saman um 24 milljarða frá árinu 2016, eða um tíu prósent, og EBITDA lækkar um heila 16 milljarða,“ segir Jónas Gestur Jónasson, yfirmaður sjávarútvegshóps Deloitte, sem hefur undanfarin ár tekið saman lykiltölur um afkomu sjávarútvegsins.
Jónas segir helstu útskýringarnar á þessu tekjutapi vera þær að verðvísitala sjávarafurða í íslenskri mynt hafi lækkað um sjö prósent frá árinu 2016 þrátt fyrir hækkun á afurðaverði í erlendri mynt og þrátt fyrir að heildarafli hafi aukist um tíu prósent á milli ára.
„En síðan hækkaði launavísitalan um 6,8 prósent, olíuverðið hækkaði um 8,5 prósent og að sjálfsögðu hafði tæplega tveggja mánaða verkfall í upphafi árs áhrif á afkomuna.“
Almennt segir Jónas að staða þeirra sem eru veikari fyrir í sjávarútvegi hafi verið erfið.
„Við höfum séð samþjöppun undanfarin ár. Þeir sem hafa verið minni og veikari hafa selt sig út úr greininni og þeir sem eru stærri og öflugri hafa keypt þá upp,“ segir hann.
„Fjárfestingin hefur verið góð í varanlegum rekstrarfjármunum sem eru skip, fasteignir, áhöld og tæki og slíkt. Síðustu fjögur árin eru þetta gríðarmiklar fjárfestingar, meðaltalið einhverjir 24 milljarðar. Þetta eru dýr skip sem verið er að kaupa og mikið búið að fjárfesta í sjálfvirknivæðingu í fiskvinnslu.“
Það eru einkum stærri og öflugri fyrirtækin sem hafa verið dugleg að fjárfesta. Staða þeirra sem veik voru fyrir hefur hins vegar áfram verið erfið. Þar af leiðandi má búast við því að samþjöppun í greininni haldi áfram, sterkari fyrirtækin kaupi þau sem verr standa að vígi.
Arðgreiðslur á árinu 2017 urðu síðan 14,5 milljarðar, sem er meira en áður hefur sést í sjávarútvegi. Veiðigjöldin urðu 6,8 milljarðar, nokkru hærri en árið áður, en samtals urðu bein opinber gjöld sjávarútvegsfélaga, þ.e. veiðigjöld ásamt tekjuskatti og tryggingagjaldi, 15,8 milljarðar króna á árinu.