Það er mat Landssambands smábátaeigenda að ekkert í frumvarpsdrögum matvælaráðherra til laga um sjávarútveg styrki útgerð smábáta. Niðurstaðan sé að sniðganga eigi mikilvægi smábáta og minni skipa við vistvæna nýtingu auðlindarinnar. Þetta kemur fram í umsögn Landssambandsins við frumvarpsdrögin.
Þar segir einnig að loka eigi öllum leiðum smábátaeigenda til að bæta veiðiheimildir sínar með umgjörð þar sem samkeppni verður ekki háð á jafnréttisgrundvelli.
„Aðgengi að fá til kvótakaupa er gjörólíkt, einstaklingsútgerðir háðar lánum frá bönkum, en útgerðir á markaði fá fé frá almenningi án þess að þurfa að greiða af því vexti. Auk þess er lagt til í frumvarpsdrögunum að skerða og afnema í áföngum línuívilnun sem hefur verið bjargræði margra útgerða, samhliða sem byggðafestu hinna dreifðu byggða er ógnað.“
Lesa má athugasemdir Landssambandsins við hinar einstöku greinar frumvarpsdraganna hér.