,,Það þokaðist ekkert til samkomulags á þessum fundi. Það er jafnlangt á milli deiluaðila nú og eftir fundinn í Bergen í janúar. Mér sýnist ljóst að ekkert samkomulag verði um veiðarnar á þessu ári,“ sagði Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ í samtali við Fiskifréttir um nýjasta samningafund strandríkjanna í makríldeilunni sem lauk í Reykjavík í gær.

Ekkert hefur verið gefið upp opinberlega um tilboð aðila í þessari deilu en heimildir herma að ESB og Noregur hafi á fundinum í Bergen boðið Íslendingum 7% kvótans og jafnframt boðið að Íslendingar gætu veitt hluta af kvótanum í lögsögum þessara ríkja á þeim tíma þegar makríllinn er verðmeiri en þegar hann er í íslenskri lögsögu. Ísland hefur hins vegar sett fram kröfu um 15% hlutdeild að því er hermt er.

Sjávarútvegsráðherra Noregs, Lisbet Berg-Hansen, og sjávarútvegsstjóri ESB, Maria Damanaki, hafa sent frá sér sameiginlega fréttatilkynningu þar sem lýst er vonbrigðum og miklum áhyggjum af því að ekki hafi náðst samkomulag á fundinum í Reykjavík. Þær segja m.a. að það valdi sérstökum vonbrigðum að hvorki Ísland né Færeyjar hafi tekið þátt í viðræðunum á fundinum eða lagt fram tillögur sem tækjum tillit til útbreiðslu makrílsins eftir lögsögum eða til sögulegra veiða.

Friðrik mótmælir þessum ummælum í samtali við Fiskifréttir. ,,Þetta er  alrangt. Við höfum tekið fullan þátt í þessum viðræðum bæði nú og allt frá því að Íslendingum var hleypt að samningaborðinu. Minna á að okkur var haldið frá samningaviðræðum um makrílinn í tíu ár. Ísland var ekki viðurkennt sem strandríki í þessum máli fyrr en árið 2010 ,“ sagði Friðrik.