Gústaf Baldvinsson framkvæmdastjóri Seagold Ltd. í Bretlandi hefur birt opið bréf, þar sem hann segir að rangar ásakanir Seðlabanka Íslands hafi valdið Seagold ómældum óþægindum og tjóni.

Rifjað er upp að Seðlabankinn hafi í kjölfar húsleitar hjá Samherja fyrir tveimur árum fullyrt að Seagold hafi keypt fisk á verulegu undirverði af Samherja. Gústaf segir að Seagold hafi verið meinað að sjá rannsóknagögnin þar til ríkissaksóknari og síðar bankaráð Seðlabankans hafi nú nýverið knúið stjórnendur bankans til þess að afhenda þau.

Gústaf segir að nú sé komið í ljós að ásakanir Seðlabankans hafi verið rangar. Það sé viðurkennt í eftirfarandi yfirlýsingu bankans:

„Það er því ályktun Seðlabanka Íslands af ofangreindri greiningu að ekki sé ástæða til að ætla að viðskipti Samherja hf. og Ice Fresh Seafood ehf. við Seagold Ltd. með þorskafurðir fari fram á öðrum kjörum en almennt tíðkast í viðskiptum óskyldra aðila.“

Vakin er athylgi á því í bréfi Gústafs að sala Samherja til Seagold nemi um 93% af útflutningi Samherja til tengdra aðila.

Sjá nánar á vef Samherja.