Rök með og á móti þeirri hugmyndin um að sameina aflamarkskerfið og krókaaflamarkskerfið í eitt veiðikerfi voru til umræðu á Sjávarútvegsráðstefnunni 2014 sem haldin var í Reykjavík í síðustu viku. Á ráðstefnunni mælti Jakob Valgeir Flosason útgerðarmaður smábáta í Bolungarvík með því að aflamarkskerfið og krókaaflamarkskerfið rynnu saman og mynduðu eitt veiðikerfi sem lyti lögmálum aflamarkskerfisins. Með því móti sköpuðust möguleikar á aukinni hagræðingu. Jakob Valgeir nefndi einnig að létta mætti á ýsuvandamálinu margrædda ef smábátar mættu sækja sinn þorsk í net þegar þannig stæði á og eins ef frjáls flutningur aflaheimilda væri milli veiðikerfa.
Halldór Ármannsson formaður Landssambands smábátaeigenda gaf lítið fyrir þau ummæli að samruni veiðikerfanna myndi leysa ýsuvanda smábáta á grunnslóð við núverandi aðstæður. Hann sagði að sameining veiðikerfanna myndi leiða til þess að stærri skip og bátar soguðu til sín aflaheimildir smábátanna þannig að smábátaflotinn yrði ekki svipur hjá sjón. Hann nefndi að tilvist smábátanna í smærri byggðarlögum væri viss trygging fyrir því að stór hluti kvótans hyrfi ekki á braut í einu vetfangi.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.