Ísfisktogarinn Viðey RE landaði um 200 tonn eftir síðasta túr. Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á Viðey, segir í viðtali á heimasíðu Brims að aflabrögðin hafi verið mjög góð og einmunablíða hafi verið á miðunum frá því í apríl.

„Það hefur gengið mjög vel á miðunum undan SV landi. Það er reyndar svo mikill fiskur að við höfum bara þurft að nota eitt troll. Ef við notuðum bæði trollin þyrftum við að fá fleiri karla um borð til að gera að fisknum,” segir Jóhannes Ellert og upplýsir að aflinn hafi verið jöfnum höndum ufsi, þorskur, ýsa og karfi í síðustu veiðiferðum.

„Ufsinn er samur við sig og kemur og fer. Óvænt ýsugengd hefur valdið okkur vandræðum. Ég man ekki eftir öðru eins frá því að ég fór fyrst til sjós. Útbreiðsla ýsunnar allt í kringum landið er með ólíkindum. Ég veit ekki hvaðan allur þessi fiskur kemur. Við höfum fram að þessu litið á ýsuna sem meðafla á öðrum veiðum. Nú er meðaflinn orðinn svo mikill að margir hafa lent í vandræðum. Það hjálpaði mikið að 8.000 tonnum var bætt við ýsukvóta ársins á dögunum en sú aukning á að dragast af kvóta næsta árs,” segir Jóhannes Ellert..