„Þetta er svipað og hefur verið síðustu ár en við erum aðeins að herða tökin í því,“ segir Sævar Guðmundsson, deildarstjóri veiðieftirlitssviðs Fiskistofu, um þau tilfelli þegar strandveiðimenn landa meiri afla en þeim er heimilt.

Nokkur kurr var meðal strandveiðimanna framan af veiðitímabilinu vegna nokkurra úr hópnum sem ítrekað hafa komið með meiri afla að landi en leyfilegt er. Þegar slíkt gerist er umframaflinn dreginn af heildarpotti allra strandveiðimanna. Hinn brotlegi greiðir ekki sekt en þarf hins vegar að borga í ríkissjóð fyrir umframaflann upphæð sem samsvarar meðalverði á markaði.

„Við erum að senda þeim mönnum sem eru hæstir leiðbeiningabréf og erum að fylgja þessu eftir,“ segir Sævar um viðbrögð Fiskistofu.

Bitnar auðvitað á hinum

Spurður hvernig á því standi að menn séu að koma með meiri afla að landi en dagskammturinn segir til um segir Sævar það í einhverjum tilfellum vera óviljandi.

Sævar Guðmundsson, deildarstjóri hjá Fiskistofu.
Sævar Guðmundsson, deildarstjóri hjá Fiskistofu.

„Menn eru kannski fyrstu dagana að rétta sig aðeins af í magni í körum,“ útskýrir hann. Úr þessu dregur, að minnsta kosti hjá sumum, þegar líður á tímabilið að sögn Sævars. „Reglurnar eru þannig að þetta er tekið sem ólögmætur sjávarafli en auðvitað er þetta tekið af pottinum og það bitnar á hinum.“

Nánar útskýrir Sævar að samkvæmt reglum um ólögmætan sjávarafla sé tekið meðalverð á fiskmörkuðum og menn rukkaðir um það aflaverðmæti.

„Það eru í raun engar sektarheimildir í þessu. En ef menn eru ítrekað í þessu og umfram magnið er mikið þá skoðar stjórnsýslu- og upplýsingasvið Fiskistofu það mál,“ segir Sævar.

Skoða lögskráningar

Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, ræddi í Fiskifréttum í síðustu viku um það sem hann kallaði „peningakalla“ sem væru í hverri höfn og gerðu aðra menn út á strandveiðar.

„Til þess að vera eigandi er nóg að vera skráður fyrir einu prósenti. Það er í hverri einustu höfn einhver peningakall sem er með bát, jafnvel tvo eða þrjá, og er að fá leiguliða til þess að róa fyrir sig,“ sagði Kjartan í síðustu viku.

Sævar, sem tekur fram að þetta málefni heyri undir stjórnsýslu og upplýsingasvið Fiskistofu en ekki veiðieftirlitssviðið, og segir stofnunina skoða ef vart verði við að eigendur strandveiðibáta séu ekki lögskráðir um borð. Einhver slík mál frá í fyrra hafi verið í vinnslu.

Eitt prósent er nóg

„Þetta eru alltaf vandræði með eigendaskráningar,“ segir Sævar. Í raun sé aðeins skoðað hverjir séu skráðir eigendur á vef Ríkisskattstjóra. „Það er engin prósenta eða slíkt sem er tekið fram í lögunum eða í reglugerðinni.“

Sævar játar því aðspurður að þannig sé því nóg í raun að vera skráður fyrir einu prósenti í strandveiðibáti til að teljast eigandi. „Það geta margir átt bát saman og svo lengi sem sá aðili er lögskráður um borð eins og reglurnar segja þá eru menn að fara eftir reglunum sem eru settar,“ segir hann.

Spurður hvort þarna sé um að ræða glufu í lögunum segir Sævar eflaust vera gloppur í þessum lögum eins og sumum öðrum.

„Það má alltaf deila um það en auðvitað eru þetta bara reglur sem gilda um eigendaskráningar. Þarna eru menn fúlir út í þá sem eru búnir að selja frá sér aflaheimildir og eru kannski með eitthvað kapítal í útgerð. Það er alltaf spurning hvernig á að lagfæra þetta,“ segir Sævar Guðmundsson.