Skipstjórinn á krókaaflamarksbátnum Lukku ÓF-57, sem stundaði línuveiðar frá Siglufirði, var snemma síðasta árs staðinn að því að kasta einum smáþorski í sjóinn.
Það var eftirlitsmaður Fiskistofu sem tók eftir þessu þann 20. janúar 2017 og í kjölfarið var skipið svipt veiðileyfi í eina viku, frá og með 6. apríl. Fiskistofa féllst þó stuttu síðar á að fresta sviptingu veiðileyfisins þannig að hún gilti frá og með 1. júlí sama ár.
Frá þessu er greint í úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru, sem barst frá Sigurði Oddsyni skipstjóra og útgerðarmanni Lukku.
Þar segir að eftirlitsmaðurinn hafi verið í róðri með Lukku þegar hann sá skipstjórann „kasta í sjóinn einum smáþorski sem komið hafði á línuna og um borð í skipið.“
Skipstjórinn og eftirlitsmaðurinn ræddu þetta atvik, og sagðist skipstjórinn hafa talið sér þetta heimilt þrátt fyrir bann við brottkasti.
Fiskistofa komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að skipstjórinn hafi þarna vissulega brotið gegn lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Samkvæmt þeim lögum beri fiskistofu að svipta skip leyfi fyrir slík brot.
Of langt gengið
Ráðuneytið taldi Fiskistofu þarna hafa gengið of langt og felldi úr gildi leyfissviptinguna, og vísar þar til þess hve magnið hafi verið lítið, auk þess sem útgerðin eða áhöfnin hafi ekki áður orðið uppvís að viðlíka broti.
Ennfremur bendir ráðuneytið á meðalhófsreglu íslensks stjórnsýsluréttar „sem efnislega felur í sér að ekki skuli ganga lengra við töku ákvarðana í hverju tilviki en tilefni er til á hverjum tíma,“ eins og segir í úrskurði ráðuneytisins. „Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“
Annað mál er varðar eftirlit Fiskistofu kom til kasta ráðuneytisins á síðasta ári, þar sem útgerðarfélagið Brattás ehf. fékk skriflega áminningu fyrir að einn dag hafi gleymst að færa afladagbók skipsins Fengs ÞH-207.
Áminningin var veitt eftir að í ljós kom við skoðun á afladagbókum skipsins fyrir apríl 2017 hafi ekki verið færður inn róður sem farinn var 7. apríl. Báturinn hafi sama dag landað 1.075 kílóum af óslægðri grásleppu og 450 kílóum af óslægðum þorski auk annars afla.
Ekki of langt gengið
Í andmælum sínum segir Jón Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Brattáss, að í þetta eina sinn hafi gleymst að færa afladagbókina. Það sé í fyrsta og eina skipti frá upphafi þegar farið var að færa afladagbækur. Hann telur þetta of harðan dóm og segist illa geta sætt sig við að hafa ítrekunaráhrif vegna úrskurðarins í gildi næstu tvö ár.
Ráðuneytið komst engu að síður að þeirri niðurstöðu að þarna hafi verið fyllilega réttmætt að veita útgerðinni áminningu. Þótt brotið verði að teljast minniháttar þá er gert ráð fyrir því í lögunum að við fyrsta minniháttar brot sé Fiskistofu heimilt að veita útgerð skriflega áminningu í staðinn fyrir að svipta skip veiðileyfinu.