Langt suður í hafi, rétt við suðurenda Reykjaneshryggsins, er fæðuríkt hafsvæði sem sjófuglar flykkjast á. Þeir koma þangað úr öllum áttum, margir frá Íslandi og öðrum Evrópulöndum við Norður-Atlantshafið en aðrir frá Afríku og Ameríku og sumir lengst sunnar frá Patagóníu og Suðurskautslandinu.
„Það eru eitthvað um 5 milljón sjófuglar sem nýta þetta svæði á einum tíma eða öðrum,“ segir Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands. Náttúrustofa Suðurlands hefur síðan 2014 verið þátttakandi í alþjóðlega verkefninu SEATRACK um kortlagningu vetrarstöðva sjófugla.
Ekki eru mörg ár síðan ekkert var vitað um mikilvægi þessa svæðis fyrir fugla, og reyndar hvali og fleiri lífverur. Eftir að vísbendingar komu fram um að á þessu svæði væri eitthvað merkilegt að gerast höfðu alþjóðlegu fuglaverndarsamtökin Birdlife frumkvæði að því að nota gögnin úr Seatrack og fleiri gögn úr merkingum sjófugla til að kanna hvað væri eiginlega í gangi.

- Svæðið djúpt suður af Grænlandi þar sem eru vetrarstöðvar marga sjófugla. Kortið er úr umræddri vísindagrein .
Sumarskilyrði að vetrarlagi
Niðurstöðurnar voru kynntar á síðasta ári í vísindatímaritinu Conservation Letters , en þær sýna að á þetta svæði flykkjast sjófuglar í stórum stíl ár hvert. Skýringin liggur í því að skilyrðin þarna eru mjög hagstæð fyrir lífríkið.
„Þarna liggur einmitt Golfstraumurinn í gegn og þetta er innan „bláa blettsins“, sem er eina svæðið sem er að kólna á jörðinni,“ segir Erpur. „Þarna smella saman tveir straumar, kaldur Labradorstraumurinn og heitur Golfstraumurinn og skilyrðin eru þannig að má eiginlega segja að þetta séu sumarskilyrði að vetrarlagi. Ef þetta væri ekkert öðru vísi en Atlantshafið er annars, þá væri lítið um að vera þarna að vetri. Það væri ekkert eftir neinu sérstöku að slægjast.“
Vetrarstöðvar íslenskra sjófugla
Erpur segir að þarna hafist meðal annars við mjög stór hluti íslenskra sjófugla.
„Skúmurinn er þarna að einhverju leyti, sem og lundi og rita svo dæmi séu tekin, og svo er mikið af haftyrðli þarna en hann er algengasta sjófuglategundin í N-Atlantshafi. Hann lifir á rauðátu, en á þessum árstíma er rauðátan yfirleitt í vetrardvala á nokkur hundruð metra dýpi en þarna er hún bara uppi í sjó. Svo eru tegundir sem nýta þetta á fari og eru þá að fara lengra, eins og til dæmis skrofa, sjósvala og kría.“
„Ef það væri ekki fyrir þessi sérstöku skilyrði á þessu svæði, þessi sumarskilyrði að vetrarlagi, þá væru margir þessir stofnar mun minni. Það væri ekki næg fæða fyrir alla einstaklingana í þessum stofnum að vetrarlagi, þannig að mikilvægi þessa svæðis fyrir þessar tegundir er gríðarlegt. Það má segja að stofnstærð þeirra ráðist að miklu leyti af líftölu þeirra á vetri. Það er miklu minni fæða á háum breiddargráðum að vetri heldur en að sumri.
Verndarsvæði
Á síðasta ári samþykkti OSPAR-nefndin að friðlýsa þetta svæði , gera það að hafverndarsvæði í samræmi við ákvæði OSPAR-samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins – enda þótt svæðið nái reyndar talsvert út fyrir mörk OSPAR-svæðisins.
Verndarsvæðið er nokkuð stórt, nærri 600.000 ferkílómetrar að flatarmáli eða nærri sexföld stærð Íslands, og nær frá Charlie-Gibbs brotabeltinu í norðri suður að Asoreyjum, og frá Flæmska hattinum í vestri austur að Mið-Atlantshafshryggnum. Til samanburðar má nefna að íslenska efnahagslögsagan er um 750.000 ferkílómetrar.