Alþjóðasiglingamálstofnunin (IMO) hefur óskað eftir tilnefningum til verðlauna fyrir einstakt hugrekki til sjós. Samgöngustofa tekur við tilnefningum frá aðilum sem telja sig hafa upplýsingar um einstakling eða hóp sem hafi sýnt slíkt hugrekki.
Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2007. Þjóðir eða samtök geta tilnefnt einstakling eða hópa sem hafa sýnt óvenjulegt hugrekki við björgun eða aðstoð á sjó.
Samgöngustofa tekur við tilnefningum frá aðilum sem telja sig hafa upplýsingar um einstakling eða hóp sem hafi sýnt slíkt hugrekki. Atvikið sem tilnefningin varðar skal hafa átt sér stað á tímabilinu 1. mars 2024 til 28. febrúar 2025. Frá þessu segir á heimasíðu Samgöngustofu og þess getið að tilnefningar skulu sendar eigi síðar en mánudaginn 7. apríl 2025 á netfangið [email protected] merktar „Einstakt hugrekki til sjós“.
Dæmi um hugrekki á sjó
Meðal þeirra sem hlutu verðlaunin árið 2024 var Avhilash Rawat skipstjóri og áhöfn hans á olíuflutningaskipinu Marlin Luanda. Þau voru heiðruð fyrir að sýna einstakt hugrekki, staðfestu og úthald við að stýra slökkvistarfi og koma í veg fyrir frekar tjón þegar kviknaði í skipinu eftir eldflaugaárás.
Frekari upplýsingar má nálgast á vef Alþjóðasiglingmálastofnunarinnar.